Isavia hagnaðist um hálfan milljarð króna á fyrri helmingi ársins samanborið við 3,5 milljarða króna tap á fyrri árshelmingi 2021. Tekjur ríkisfyrirtækisins jukust um 9,5 milljarða króna á milli ára og námu 15,8 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Isavia.

Rekstrarafkoma af samstæðu Isavia fyrir afskriftir (EBITDA) á fyrstu sex mánuðum ársins var jákvæð um 968 milljónir króna samanborið við neikvæða rekstrarafkomu upp á 3,2 milljarða króna fyrir sama tímabil á síðasta ári.

Sjá einnig: Fleiri farþegar um Leifstöð en árið 2019

„Það eru mikilvæg og góð tíðindi að okkur hafi tekist að endurheimta þann fjölda farþega sem fór um Keflavíkurflugvöll fyrir kórónuveirufaraldurinn,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia.

„Sú staða er langt frá því að vera sjálfsögð þegar við horfum til annarra flugvalla í Evrópu enda við einn af örfáum flugvöllum í álfunni sem höfum náð þessum árangri. Á sama tíma erum við í umsvifamestu framkvæmdum í sögu félagsins enda er það lykilatriði að við gerum Keflavíkurflugvöll í stakk búinn að styðja áfram við fjölgun flugtenginga og hafa þannig bein áhrif á lífsgæði og velsæld á Íslandi“.

Fjárfestingar félagsins námu um 6,5 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins og má rekja langstærsta hlutann, eða um 6,1 milljarð króna til framkvæmda á Keflavíkurflugvelli.

Erfitt að eiga við launakostnað á Íslandi

Sveinbjörn segir að þrátt fyrir að farþegum hafi fjölgað hratt aftur sé talsverð óvissa framundan.

„Kostnaðarhækkanir síðustu ára og þá sér í lagi launakostnaður á Íslandi hafa gert okkur erfitt fyrir að ná þeirri arðsemi sem nauðsynleg er til að standa undir þeirri miklu uppbyggingu sem framundan er og eins og staðan er í dag þá er mikil óvissa framundan.

Við verðum áfram í mikilli samkeppni við erlenda flugvelli og við þurfum því að vera einstaklega snjöll til að mæta þessari óvissu. Flugtengingar eru einn af þeim lykilþáttum sem styðja við hagvöxt á Íslandi“.

Lykiltölur úr hálfsársuppgjöri Isavia 2022

Tekjur 15.813 milljónir króna
EBITDA 968 milljónir króna
Hagaður eftir skatta 501 milljón króna
Handbært fé 8.518 milljónir króna
Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum 6.457 milljónir króna
Eigið fé í lok tímabils 37.078 milljónir króna
Eiginfjárhlutfall 42,2%