Hlutabréf Íslandsbanka lækkuðu um 3,51% í viðskiptum dagsins í Kauphöllinni og nam velta með bréf bankans 523 milljónum króna. Hlutabréfaverð bankans er nú komið niður í 110 krónur á hvern hlut.

Viðskiptablaðið greindi frá því fyrir stuttu að gengi bankans hafi haldið áfram að lækka í dag ofan á tæplega 3% lækkun gærdagsins. Dagslokagengið fyrir helgi hafi verið 117 krónur og hefur gengi bankans í Kauphöllinni nú fallið um 6,38% síðastliðinn mánuð.

Gengi bankans hefur lækkað umtalsvert eftir að sátt Íslandsbanka og FME um 1,2 milljarða króna sektargreiðslu birtist í gærmorgun. Í sáttinni kemur meðal annars fram að stjórn bankans hafi sýnt af sér athafnaleysi og að stjórnarhættir innan Íslandsbanka beri vott um skort á áhættuvitund.

Hlutabréf Arion lækkuðu einnig um 1,16% í viðskiptum dagsins og nam velta með bréf bankans 570 milljónum króna. Icelandair lækkaði þar að auki um 2,50% í 471 milljóna króna veltu. Kvika banki lækkaði þá um 2,88% og er stendur gengi bankans nú í 16,85 krónum á hvern hlut.

Marel hækkaði aftur á móti um 0,25% í 199 milljóna króna veltu. Gengi félagsins hafði fyrr í dag hækkað um 1,48% en við lokun markaða í gær náði hlutabréfaverð þess fjögurra ára lágpunkti.