Íslenska streymisveitan Uppkast var tekin til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 29. nóvember síðastliðnum. Þetta kemur fram í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu. Síminn var einn stærsti hluthafi streymisveitunnar.

Íslenska streymisveitan Uppkast var tekin til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 29. nóvember síðastliðnum. Þetta kemur fram í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu. Síminn var einn stærsti hluthafi streymisveitunnar.

Hugmyndin með Uppkasti, sem var stofnað í apríl 2021, var að bjóða fólki kost á að miðla þekkingu sinni eða hæfileikum til áskrifenda og hafa af því tekjur eftir því hvað efnið er mikið spilað. Boðið var upp á aðgang að myndverum til að taka upp efni og senda það út í gegnum smáforrit Uppkasts.

Stærsti hluthafi Uppkasts í árslok 2021 var Stanley ehf., í eigu stofnandans Stefáns Arnar Þórissonar, með 65,4% hlut samkvæmt síðasta ársreikningi streymisveitunnar. Síminn var næst stærsti hluthafinn með 17,2% hlut en tilkynnt var um kaup Símans í streymisveitunni í september 2021.

Meðal fjárfesta í verkefninu voru Ólafur Andri Ragnarsson, Jónas Björgvin Antonsson, Jón Gunnar Jónsson, Halldór H. Jónsson og Arcur Ráðgjöf.

Samkvæmt ársreikningi voru 75,5 milljónir króna lagðar inn í félagið í formi hlutafjár á stofnárinu. Félagið tapaði 54 milljónum á fyrsta rekstrarárinu og var eigið fé 21,2 milljónir í árslok 2021. Eignir félagsins voru bókfærðar á 30,5 milljónir króna í árslok 2021.