Þyngdastjórnunarlyf á borð við Ozempic og Wegovy frá danska lyfjaframleiðandanum Novo Nordisk hafa notið gríðarlegra vinsælda um allan heim.

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hóf rannsókn á lyfjunum í júlí í fyrra eftir að tilkynningar bárust um auknar sjálfsvígshugsanir hjá sjúklingum.

Nú hefur stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að fyrirliggjandi gögn bendi ekki til þess að orsakasamband sé á milli notkun lyfjanna og aukinnar sjálfsvígshættu. Áður hafði Lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) komist að sambærilegri niðurstöðu.

Að því er segir í frétt Bloomberg hækkuðu hlutabréf Novo Nordisk um allt að 1,7% í kauphöllinni í Kaupmannahöfn við fréttirnar. Þegar þetta er skrifað stendur gengi hlutabréfa Novo í 881 danskri krónu. Hæst fóru hlutabréfin í 925 danskar krónur 14. mars sl.

Fleiri fyrirtæki hafa stokkið á offitulyfjavagninn en Eli Lilly býður til dæmis upp á lyfin Mounjaro og Zepbound en rannsókn EMA náði ekki til þeirra lyfja. Sambærilegt en eldra lyf frá Eli Lilly, Trulicinity, var þó hluti af rannsókninni auk Byetta frá AstraZeneca.