Hugbúnaðarfyrirtækið Justikal hefur sett á markað tvær nýjar lausnir sem gerir aðilum í dómsmálum kleift að meðhöndla gögn á öruggari og rekjanlegri hátt.

Önnur lausnin snýr að því að birta stefnur og önnur gögn með rafrænum hætti en hin gengur út á að hefja undirbúning að málum rafrænt áður en þau eru send til dómstóla

„Það var orðið mjög brýnt að okkar mati að geta birt stefnur og önnur gögn með rafrænum hætti. Með öruggri rekjanlegri gagnasendingarþjónustu Justikal er hægt að tryggja að einungis skilgreindur viðtakandi fái umrætt skjal. Ferlið er mjög einfalt bæði fyrir sendanda og viðtakanda og fyllsta öryggis gætt með rafrænum undirskriftum á skjölum þar sem báðir aðilar þurfa að auðkenna sig,“ segir Margrét Anna Einarsdóttir, stofnandi og forstjóri Justikal.

Notendur hafa nú tvo valkosti í kerfinu þegar þeir stofna ný mál, annars vegar almennt mál og hins vegar dómsmál. Þegar notendur stofna almenn mál í kerfinu geta þeir unnið með öðrum notendum við vinnslu mála og geta þá líka gert persónulegar athugasemdir við skjöl og deilt þeim í rauntíma með völdum málsaðilum.

Margrét segir einnig mikilvægt að geta hafið undirbúning að málum rafrænt áður en þau eru send til dómstóla.

„Fjöldinn allur af ágreiningsmálum fara ekki alla leið fyrir dómstóla eða leysast áður en þangað er komið. Áður þegar mál voru stofnuð í Justikal voru þau strax send til dómstóla. Nú gefst notendum kostur á að búa til almenn mál og vinna í þeim yfir lengra tímabil. Notendur geta síðan með einföldum hætti breytt almennu máli í dómsmál og sent það inn til dómstóla,“ segir Margrét.