Sigurður Valtýsson, fyrirsvarsmaður Frigusar II, hyggst kæra Steinar Þór Guðgeirsson lögmann til úrskurðarnefndar lögmanna fyrir brot á siðareglum. Þetta staðfesti Sigurður í samtali við Viðskiptablaðið.

Tildrög kærunnar eru fundur sem Steinar Þór átti með hópi vitna í bótamáli Frigusar II gegn Lindarhvoli og íslenska ríkinu nokkrum vikum fyrir aðalmeðferð í málinu sem fram fór í síðustu viku í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Nástaða Steinars Þórs við málið hefur vakið athygli, en auk þess að vera vitni í málinu er hann lögmaður stefndu. Í vitnaleiðslum staðfestu fjögur vitni að Steinar Þór, Þórhallur Arason, Haukur C. Benediktsson og Esther Finnbogadóttir hefðu öll hittst í Seðlabankanum fyrir aðalmeðferðina. Þá staðfestu þau einnig að Ása Ólafsdóttir, hæstaréttardómari og vitni í málinu, hefði tekið þátt í fundinum í gegnum síma.

Á sínum tíma sátu Þórhallur, Haukur og Ása öll í stjórn Lindarhvols og Esther í varastjórn, en í dag er hún fyrirsvarsmaður félagsins. Þá gengdi Steinar Þór sérstöku ráðgjafahlutverki fyrir stjórn Lindarhvols.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun sem birtist í tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út í dag.