Lars Bendix, eigandi danska fyrirtækisins Liplid, segist vona að Danir geti drukkið úr nýja kaffilokinu sem fyrirtæki hans framleiðir í desember en hann gerir ráð fyrir að ekki muni langt um líða þar til lokin verða vinsæl um allan heim. Liplid er nú metið á rúmlega 100 milljónir danskra króna eða um 2 milljarða íslenskra króna. Hugmyndin að fyrirtækinu kom fyrir slysni. Børsen greinir frá.

Árið 2018 settist Lars undir stýri á sínum nýkeypta Audi A6 á köldum morgni með kaffibolla. Þegar bíllinn byrjaði að rúlla af stað fór lokið af bollanum og sullaðist kaffið niður bringuna á Lars.

„Sem betur fer voru sætin í bílnum ekki hvít, en það dró ekki úr pirringnum. Ég hafði hellt yfir mig og með loki sem ég hafði sjálfur hannað en það hafði bara ekki passað á bollann,“ segir Lars.

Uppákoman varð hins vegar til þess að Lars fékk hugmynd um hönnun á betra loki og fór hann rakleiðis upp á verkstæði til að teikna upp byltingarkennda bollalokið sitt. Hann kom með skissu af líkani þar sem lokið á bollanum hallaði ofan í bollann, frekar en ofan á hann. Þar með væri hægt að drekka beint úr bollanum í stað þess að „sjúga kaffið úr honum“ eins og Lars orðar það.

Lars segir að verkefnið hafi í raun bara verið áhugamál fyrir hann en hann er þar að auki stofnandi og meðeigandi danska kaffifyrirtækisins Danish Coffee.

„Ég eyddi nokkrum mánuðum í þetta verkefni án þess að þéna krónu, en það er allt í lagi, ég skemmti mér við það. Nú hefur verið ráðinn forstjóri hjá Liplid og ég er mjög sáttur með þá sem hafa tekið yfir. Ég á þriðjung í fyrirtækinu og þar með stærsta hlutann en ég er líka tilbúinn að selja meira frá mér eftir því sem fyrirtækið stækkar og ég hef svo sannarlega trú á því að það gerist,“ segir Lars.