Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands greindi á miðvikudag frá ákvörðun sinni um að hækka vexti bankans um eina prósentu. Stýrivextir bankans hækkuðu því úr 6,5% í 7,5%. Í yfirlýsingu nefndarinnar kemur fram að verðbólguþrýstingur haldi áfram að aukast og verðhækkanir nái til æ fleiri þátta. Verðbólga mælist nú 10,2% og undirliggjandi verðbólga sé 7,2%. „Verðbólguvæntingar til lengri tíma eru enn vel yfir markmiði og raunvextir bankans hafa lækkað frá síðasta fundi nefndarinnar. Útlit er fyrir að verðbólga verði meiri á næstunni en spáð var í febrúar þótt hægt hafi á húsnæðismarkaði,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar.

Nefndin benti einnig á að hagvöxtur hafi verið mikill í fyrra og vel umfram það sem þjóðarbúskapurinn geti staðið undir til lengdar. Þá hafi innlend eftirspurn aukist meira en gert var ráð fyrir í febrúar og vísbendingar séu um að hún hafi verið kröftugri í ársbyrjun en talið var. Jafnframt sé spenna á vinnumarkaði töluverð. „Við þessar aðstæður er mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags, sérstaklega þegar litið er til mikillar spennu í þjóðarbúinu og komandi kjarasamninga. Peningastefnunefnd mun beita tækjum sínum til að tryggja betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum og koma verðbólgu í markmið.“

Kallar eftir lögfestingu útgjaldareglu

Í grein Óla Björns Kárasonar, formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sem birt var í Morgunblaðinu í gær er fjallað um mikilvægi þess að lögfesta útgjaldareglu og hafa hana sem meginreglu við stjórn opinberra fjármála. Í greininni bendir Óli Björn á að verðbólga sé mikil, vextir hafi hækkað verulega og þensla sé á flestum sviðum. Við slíkar aðstæður sé farið úr öskunni í eldinn ef útgjöld séu aukin umfram vöxt efnahagslífsins. Vandi fjármálaráðherra sé aftur á móti sá að þrýstingurinn á aukningu útgjalda sé mikill.

Í lok árs 2015 samþykkti Alþingi lög um opinber fjármál þar sem tvær fjármálareglur, og ein til vara, voru samþykktar. Afkomureglan felur í sér að heildarjöfnuður hins opinbera skuli vera jákvæður yfir fimm ára tímabil og árlegur halli aldrei meiri en 2,5% af vergri landsframleiðslu. Skuldareglan snýst svo um að skuldir ríkis og sveitarfélaga, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum, viðskiptaskuldum, sjóðum og bankainnistæðum, skuli vera lægri en 30% af vergri landsframleiðslu. Reglan sem var svo sett til vara er hin svokallaða skuldalækkunarregla og er inntak hennar að ef skuldahlutfall sé hærra en 30% skuli sá hluti sem umfram sé lækka að meðaltali á hverju þriggja ára tímabili um a.m.k. 5% á hverju ári.

Þessum lögum var þó vikið til hliðar til loka ársins 2025 í Covid-19 heimsfaraldrinum til að verja heimili og fyrirtæki í landinu fyrir efnahagsþrengingum sem faraldurinn hafði í för með sér. Í greininni segir Óli Björn lögin hafa falið í sér miklar umbætur en reynslan hafi þó leitt í ljós ákveðna galla. „Afkomuregla og skuldaregla duga ekki til að tryggja nauðsynlegan aga í opinberum fjármálum. Afkoma er ekki góður mælikvarði á aðhald. Í uppsveiflu getur mikill vöxtur tekna stutt við góða afkomu en á sama tíma gefið tækifæri til aukins slaka í opinberum fjármálum, sem magnar hagsveifluna,“ skrifar Óli Björn.