Qatar Sports Investments (QSI), eigandi Paris Saint-Germain, hefur samþykkt að selja 12,5% hlut í franska knattspyrnufélaginu til bandaríska fjárfestingarfélagsins Arctos Partners. Viðskiptin meta virði PSG á yfir 4 milljarða evra, að því er kemur fram í frétt Financial Times.

Qatar Sports Investments (QSI), eigandi Paris Saint-Germain, hefur samþykkt að selja 12,5% hlut í franska knattspyrnufélaginu til bandaríska fjárfestingarfélagsins Arctos Partners. Viðskiptin meta virði PSG á yfir 4 milljarða evra, að því er kemur fram í frétt Financial Times.

Í tilkynningu PSG segir að innkoma nýs hluthafa muni styðja við vöxt frönsku meistaranna, þar á meðal við markaðssókn á erlendum mörkuðum líkt og í Bandaríkjunum. Jafnframt sé horft til þess að fjárfesta í innviðum félagsins og er þar minnst á knattspyrnuvöll og æfingaraðstöðuna.

QSI keypti PSG fyrir tæplega 70 milljónir evra árið 2011. Áætlað er að katörsku eigendurnir hafi síðan þá fjárfest í knattspyrnufélaginu fyrir um 1,5 milljarða evra. Viðræður um framangreinda sölu á minnihluta í PSG hafa staðið yfir í meira en ár.

QSI er félag stofnað af katarska ríkinu til að fjárfesta í íþróttum og er fjármagnað af þjóðarsjóði Katar. Í umfjöllun FT segir að frá heimsmeistaramótinu í Katar sem fór fram fyrir rúmu ári hafa stjórnvöld í Katar horft til þess að ná fram meiri dreifingu í fjárfestingu sinni í íþróttum.

Þjóðarsjóður Katar keypti fyrr í ár 5% hlut í Monumental Sports, sem á m.a. NBA-liðið Washington Wizards og NHL-liðið Washington Capitals, fyrir 200 milljónir dala.

Nýi bandaríska hluthafi PSG, Arctos Partners, fjárfestir einnig í fleiri íþróttum en fótbolta. Fjárfestingarfélagið keypti fyrir nokkrum vikum minnihluta í Formúlu 1 liðinu Aston Martin, sem var metið á um 1 milljarð punda í viðskiptunum.