Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,8% í 2,2 milljarða króna viðskiptum í Kauphöllinni í dag. Öll félög á aðalmarkaði Nasdaq lækkuðu í viðskiptum dagsins en áberandi var að hlutabréfaverð fór lækkandi eftir að ríkisstjórnin tilkynnti um hertari reglur á landamærum. Úrvalsvísitalan hefur engu að síður hækkað um 26,5% frá áramótum.

Arion banki lækkaði um 3,5% í dag, mest allra félaga á aðalmarkaðnum, en gengi Arion stendur nú í 161 krónu á hlut. Kvika banki lækkaði einnig um 2,0% og Íslandsbanki um 1,8%.

Það var hins vegar Play sem leiddi lækkanir en flugfélagið lækkaði um 4,7% í 109 milljóna króna veltu á First North markaðnum. Hlutabréfaverð Play stendur nú í 21,9 krónum á hlut, sem er 9,5% yfir genginu í nýliðnu útboði félagsins. Icelandair lækkaði sömuleiðis um 2,6% og hefur nú lækkað um 11% frá því í byrjun síðustu viku.

Gengi Iceland Seafood féll um 2,9%, næst mest af öllum félögum aðalmarkaðarins. Bæði Festi og Reitir lækkuðu um 2,4% í viðskiptum dagsins.