Nýja hótelfélagið Legendary Hotels & Resorts hefur gengið frá kaupum á Hóteli Hellu og Árhúsi en um er að ræða fyrstu fjárfestingu félagsins á Íslandi. Legendary hefur þegar tekið við rekstri hótelanna tveggja.

Hótelin voru í eigu Southdoor ehf. sem seldi einnig Hótel Skóga nýlega. Félagið hafði rekið hótelin þrjú í rúman áratug.

Arnar Freyr Ólafsson, aðaleigandi og framkvæmdastjóri Southdoor, mun nú ganga til liðs við Legendary og annast þróun og uppbyggingu á eignum hótelfélagsins.

Arnar Freyr Ólafsson
Arnar Freyr Ólafsson

Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að tíminn í Covid-faraldrinum hafi reynst Southdoor gríðarlega erfiður en kveðst spenntur fyrir nýjum tímum.

„Við náðum að komast í gegnum þetta með gömlu góðu hörkunni. Við höfum nú selt reksturinn og fögnum þessari fjárfestingu,“ segir Arnar Freyr, sem er jafnframt bæjarfulltrúi og oddviti Framsóknar í Árborg.

Árhús á Hellu er með 35 smáhýsi og veitingastað og Hótel Hella er með 45 herbergi.

Dmitrijs Stals, forstjóri og stofnandi Legendary, segir að félagið hyggist ráðast í endurbætur á hótelunum á næstu mánuðum. Hann horfir til þess að stækka Hótel Hellu með nýrri viðbyggingu og bæta við lúxusherbergjum í Árhúsi.

Viðskiptablaðið ræddi við Dmitrijs í nóvember um áform hins nýstofnaða Legendary Hotels & Resorts ehf. Félagið hefur lýst því yfir að það stefni á að reka 12 hótel á Íslandi og áætlar að fjárfesting þess hér á landi verði um 20 milljarðar króna á næstu árum.