Bandaríski verslunarrisinn Walmart hefur fest kaup á sjónvarpsframleiðandanum Vizio fyrir 2,3 milljarða dala. Kaupin eru hluti af stefnu Walmart um að auglýsingatekjur verði ein af megin tekjustoðum félagsins til framtíðar. WSJ greinir frá.

Með kaupunum opnast að sögn forsvarsmanna félagsins aukin tækifæri fyrir Walmart til að selja auglýsingar í gegnum sjónvarpstækin sem Vizio framleiðir, auk þess að búa til skemmtiefni fyrir viðskiptavini sína.

Seth Dallaire, framkvæmdastjóri tekjustýringar hjá Walmart, segir í samtali við WSJ að kaupin séu viðbragð við breyttum veruleika í tekjuumhverfi félagsins sem og í sjónvarpsgeiranum. Hann mun stýra Vizio er kaupin ganga endanlega í gegn. Tenging sjónvarpa við netið og streymisveitur hafi breytt áherslum í sjónvarpsiðnaði úr vélbúnaðarlausnum í hugbúnaðarlausnir. Með því að hafa Vizio innan sinna raða hafi Walmart aðgang að viðskiptavinum og gögnum þeim tengdum sem geri auglýsingar í gegnum sjónvörpin að aðlaðandi kosti fyrir auglýsendur.