Alls voru 411 kaupsamningar gefnir út í janúar á landinu öllu. Þeir hafa ekki verið færri síðan í janúar 2012, að ‏því er segir í nýrri mánaðarskýrslu HMS.

Sé miðað við árstíðaleiðréttar tölur fækkaði kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu úr 430 í desember í 353 í janúar og í nágrannasveitarfélögum þess úr 138 í 90. Bent er þó á að umsvif eru gjarnan minnst í janúar vegna jólavertíðar.

HMS segir útlit fyrir að fjöldi viðskipta hafi aukist á ný en fjöldi íbúða sem teknar voru úr sölu í janúar og febrúar var svipaður og á haustmánuðum síðasta árs. Þá hefi árstíðaleiðréttur fjöldi kaupsamninga aukist í febrúar miðað við bráðabirgðatölur.

Fjöldi útgefinna kaupsamninga á mánuði.

Um 2.500 íbúðir eru til sölu á landinu öllu og þar af eru ríflega 1.500 á höfuðborgarsvæðinu. „Framboðið er því orðið meira en það var í lok nóvember en líklega má rekja framboðssamdrátt desembermánaðar til jólavertíðarinnar.“

Fleiri íbúðir seljast undir ásettu verði

Hlutfall íbúða sem seldist á yfirverði jókst á höfuðborgarsvæðinu úr 12,4% í janúar í 14,5% í febrúar. „Þrátt fyrir að íbúðamarkaður hafi kólnað verulega á undanförnum misserum er hlutfall yfirverðs hærra en það var flesta mánuði á árunum 2013-2020,“ segir í skýrslunni.

Hlutfall íbúða sem seldust á undirverði hækkaði þó einnig milli mánaða eins og það hefur gert allt frá því í maí síðastliðnum. Í febrúar seldust 72,7% íbúða á höfuðborgarsvæðinu undir ásettu verði samanborið við 69,8% í janúar og 64,8% í desember.

Kaupverð íbúða í samanburi við ásett verð.

Sölutími áfram stuttur

Meðalsölutími í febrúar var 47,4 dagar á höfuðborgarsvæðinu samanborið við 50,9 daga í janúar en 41,7 daga í desember. Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins hafa hins vegar verið litlar breytingar á meðalsölutíma en þar mældist hann 48,2 dagar í febrúar samanborið við 43 daga í janúar.

Annars staðar á landsbyggðinni mældist meðalsölutíminn í nóvember 44,1 dagur og hefur hann aldrei verið styttri. „Óvenjulegt er að meðalsölutíminn mælist styttri þar en á höfuðborgarsvæðinu‏.“

Í skýrslunni kemur fram að birgðatími íbúða til sölu á höfuðborgarsvæðinu hafi mælst 5,3 mánuðir í febrúar. Það gefur til kynna að það tæki svo langan tíma að selja þann fjölda íbúða sem var til sölu 1. febrúar ef viðskipti væru jafn mörg og í janúar.

„Svo langur hefur birgðatíminn ekki verið frá upphafi mælinga sem var í október 2017. Þó ber að hafa í huga að hann mælist oft óvenju mikill í janúar og febrúar hvers árs.“

Birgðatími íbúða til sölu.