Jörðin Neðri-Dalur í Biskupstungum, sem er sú næsta við Geysissvæðið í Haukadal, er til sölu og er ásett verð á hana 1,2 milljarður króna.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í apríl í fyrra buðust þáverandi eigendur af tveim þriðju hluta Geysissvæðisins sjálfs til að kaupa þriðjungseignarhlut ríkisins á milljarð. Ekki var gengið að því tilboði, en þess í stað keypti ríkið hlut landeigandanna, og var fenginn dómskvaddur matsmaður til að reikna verðið á landinu, en samkvæmt fyrra tilboði var það metið á þrjá milljarða.

Hafa nú kínverskir fjárfestar lýst yfir áhuga á að kaupa jörðina Neðri-Dal, sem er við hliðina á Geysissvæðinu, að því er Fréttablaðið greinir frá. Jörðin er 1.200 hektarar að stærð en þar er eins og gefur að skilja heitt vatn í nýtanlegu magni og gefa prófanir vísbendingu um talsvert meira sé nýtanlegt þar í iðrum jarðar.

„Horfa þeir helst til staðsetningar jarðarinnar og þess að þar er heitt vatn,“ segir Böðvar Sigurbjörnsson, fasteignasali hjá Stakfelli, en fyrirtækið hefur jörðina til sölu. „Hyggjast þeir byggja upp ferðamannatengdan iðnað og kemur þar nýting heita vatnsins verulega við sögu.“

Fyrir utan heita vatnið er þar einnig kaldavatnslind, á með silungi og laxi og svo tilheyrir Bjarnafell jörðinni en þar er gott útsýni yfir svæðið. Síðan liggur jörðin við einn fjölfarnasta ferðamannastað landsins. Jörðin er í eigu átta bræðra, sem allir hyggjast skilja eftir smá skika fyrir sumarbústaði sína.