Árið 2016 kynnti kínverski fasteignaframleiðandinn Country Garden verkefnið Forest City í Malasíu. Verkefnið kostaði hátt í 100 milljarða dali og var hluti af Belti- og braut samstarfinu.

Á þeim tíma var mikil uppsveifla í kínverska fasteignabransanum og tóku hönnuðir stór lán til að byggja upp fasteignir bæði í Kína og erlendis fyrir millistéttina.

Í Malasíu var áætlun fyrirtækisins að byggja vistvæna stórborg með golfvelli, vatnsgarði, skrifstofum, börum og veitingastöðum. Country Garden sagði að Forest City myndi hýsa hátt í milljón íbúa.

Átta árum síðar er Forest City draugaborg og lýsandi dæmi um fasteignakreppuna í Kína. Aðeins 15% af borginni er fullkláruð og samkvæmt nýjustu tölum er ekki nema 1% af henni í notkun. Skuldir Country Garden vegna verkefnisins eru tæplega 200 milljarðar dalir en fyrirtækið segir í samtali við BBC að það búist við því að klára verkefnið.

Forest City var seld sem „draumaparadís fyrir allt mannkynið“, en í raun og veru var borgin hugsuð fyrir Kínverja sem vildu eignast annað heimili erlendis. Íbúðaverðin voru mun hærri en flestir íbúar í Malasíu höfðu efni á.

Forest City eins og hún átti upphaflega að líta út.

Nazmi Hanafiah er hins vegar einn af þeim íbúum Malasíu sem flutti til borgarinnar fyrir ári síðan. Nazmi er þrítugur tölvufræðingur sem leigði sér eins herbergja íbúð í háum turni sem horfir yfir sjóinn, en eftir sex mánuði hafði hann fengið nóg.

„Mér var alveg sama um trygginguna mína og mér var alveg sama um peningana mína. Ég vildi bara komast út. Ég fæ bara hroll við það að vera kominn aftur hingað. Það er svo einmanalegt hérna, það er bara þú og hugsanir þínar,“ segir Nazmi.

Hann segist sjálfur hafa haft miklar væntingar til verkefnisins en að reynslan hafi verið mjög slæm. Staðsetning borgarinnar er á mjög einangruðum stað og er langt frá næstu stórborg, Johor Bahru. Forest City hefur nú öðlast gælunafnið Draugaborgin.

Á eyðiströnd borgarinnar má finna subbulegan barnaleikvöll, ryðgaða bíla og skilti við sjóinn sem varar við krókódílum. Flestar verslanir og veitingastaðir í verslunarmiðstöðinni eru lokaðar og þar má einnig finna tóma barnalest sem keyrir um hring eftir hring og spilar „Höfuð, herðar, hné og tær“ á kínversku.

Tóm kínversk verslunarmiðstöð í Forest City.
© Getty Images (Getty)

Núverandi ríkisstjórn Malasíu segist styðja Forest City verkefnið en óljóst er hversu marga kaupendur Country Garden mun laða til sín. Heimsfaraldurinn hafði einnig áhrif á verkefnið og eru takmarkanir á það hversu mikinn pening kínverskir ríkisborgarar mega eyða erlendis.

Fasteignafyrirtækið er ekki eina kínverska fyrirtækið sem glímir við erfiðleika en talsmenn kínverska fasteignarisans Evergrande þurftu í vikunni að mæta fyrir dómstól í Hong Kong. Evergrande hefur nú verið veittur sex vikna frestur til að semja um endurgreiðsluáætlun en fyrirtækið er skuldsettasta fyrirtæki heims.