Samkvæmt hagsmunaskrá þingmannsins Kristrúnar Frostadóttur, sem var síðast uppfærð 19. maí síðastliðinn, á hún ekki lengur neina fjárhagslega hagsmuni sem reglur um hagsmunaskráningu taka til. Það er því ljóst að Kristrún á ekki lengur hlutabréf í Kviku banka, þar sem hún starfaði áður sem aðalhagfræðingur.
Samkvæmt ársreikningi Kviku fyrir árið 2020 má gera ráð fyrir að Kristrún hafi átt útistandandi kauprétti í bankanum frá því í desember 2017, þegar hún hóf störf. Í ársreikningi bankans fyrir árið 2021 eru kaupréttirnir hins vegar ekki lengur skráðir sem útistandandi og má því ætla að hún hafi nýtt kaupréttina í fyrra og eignast þar með hlutabréf í Kviku.
Kristrún greindi frá því í viðtali við Egil Helgason í Silfrinu í október í fyrra að hún hefði keypt áskriftarréttindi að 10 milljónum hlutabréfa í Kviku banka fyrir um 3 milljónir króna árið 2018. Á tíma viðtalsins hafi heildarábati af bréfunum sem hún hafði innleyst verið um 30 milljónir króna eftir skatt en útistandandi réttindi væru enn tugmilljóna virði. Sagði Kristrún að um mikla áhættufjárfestingu hefði verið að ræða, enda væri óvíst hvernig virði bréfanna myndi þróast. Kaupréttir geta eðli málsins samkvæmt orðið verðlausir ef verð hlutabréfanna er lægra en innlausnarvirði þeirra.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.