Að mati greiningar­deildar Lands­bankans styrkist krónan lítil­lega á árinu sam­hliða hækkandi raun­gengi þar sem verð­bólga verður meiri hér en í helstu við­skipta­löndum Ís­lands.

„Krónan veiktist nokkuð í nóvember í fyrra þegar jarð­hræringarnar á Reykja­nes­skaga stóðu sem hæst. Veikingin gekk að hluta til baka og undan­farið hefur gengi krónunnar verið á nokkuð þröngu bili, sér­stak­lega gagn­vart evru sem hefur kostað um það bil 150 krónur,“ segir í Hag­s­já Lands­bankans sem kom út í morgun.

Greiningar­deildin segist ekki hafa ein­hlíta skýringu á því af hverju krónan hefur reynst svona stöðug en veltir þó ýmsu upp.

Til dæmis hefur velta á milli­banka­markaði með gjald­eyri hefur verið í minna lagi sem bendir til þess að við­skipta­bankarnir hafi náð að para saman kaup­endur og selj­endur á gjald­eyri meðal við­skipta­vina sinna að miklu leyti, sem aftur bendir til þess að það sé nokkuð gott jafn­vægi í gjald­eyris­flæði inn og út úr landinu.

„Seðla­bankinn hefur þar af leiðandi að mestu haldið sig á hliðar­línunni síðan í nóvember, fyrir utan ein við­skipti í febrúar þegar hann greip inn og seldi krónur til að mæta inn­flæði er­lendra aðila vegna þeirra á ís­lenskum ríkis­skulda­bréfum í út­boði Lána­mála,“ segir í Hag­s­jánni.

Í hag­spá Lands­bankans til ársins 2026 gerði greiningar­deild bankans ráð fyrir hæg­fara styrkingu krónunnar næstu ár og að evran myndi standa í 148 í lok árs 2024, 146 í lok árs 2025 og 145 í lok árs 2026.

„Alltaf má þó búast við þó nokkrum gengis­sveiflum innan árs og jafn­vel innan mánaða. Helstu á­stæður fyrir því að við spáum styrkingu eru horfur um af­gang af við­skiptum við út­lönd. Staðan í fram­virkum samningum bendir einnig til þess að markaðs­aðilar séu al­mennt bjart­sýnir á gengið á­samt því sem vaxta­munur við út­lönd ætti að styðja við gengið,“ segir í Hag­s­jánni.

Ísland verður dýrara

Raun­gengi er það sem skýrir hversu dýrt eða ó­dýrt Ís­land er, enda búið að leið­rétta fyrir breytingum á verð­lagi. Raun­gengi hefur hækkað ár frá ári frá því það fór lægst í co­vid-far­aldrinum árið 2020.

Greiningar­deild bankans telur að raun­gengi hækki á­fram næstu árin og að árið 2026 verði það á svipuðum stað og árið 2017 þegar það var hvað hæst á síðasta upp­gangs­tíma ferða­þjónustunnar.

„Hærra raun­gengi þýðir hátt verð á vörum og þjónustu hér á landi í saman­burði við önnur lönd. Það gæti haft þær af­leiðingar að færri, en efna­meiri, ferða­menn komi hingað til lands en ella. Hafa ber þó í huga að við spáum ekki sam­drætti í ferða­þjónustu, heldur að­eins að um­svif hennar aukist minna næstu ár en þau hafa gert á síðustu árum,“ segir í spá bankans.