Engum blöðum er um það að fletta að sögn Mark Nichols, sjóðstjóra hjá sjóðastýringarfélaginu Jupiter Asset Management, að lífeyrissjóðir og aðrir stofnanafjárfestar hafi smátt og smátt verið að horfa til fjölbreyttari eignaflokka á borð við óskráð félög, vogunarsjóði og fleira í bland við það sem áður fyrr var svo gott sem það eina í flestum söfnum: hluta- og skuldabréf.

Meira að segja séreignarlífeyrisreikningar í Bandaríkjunum (svokallaðir 401K reikningar) hafi nýlega fengið heimild til að fjárfesta í óskráðum eignum.

Á meðan fjárfestar hafi enn ekki náð þessum eignaflokkum upp í það hlutfall dæmigerðs dreifðs eignasafns sem æskilegt þyki telur hann viðbúið að áfram verði nóg að gera á þeim sviðum.

Aðspurður segir Mark líklegt að viðvarandi lágt vaxtastig í hinum vestræna heimi allt frá fjármálakrísunni 2008 hafi ýtt undir tilfærsluna yfir í áðurnefnda fjárfestingakosti, þótt hann telji sig fátt geta sagt um það með fullri vissu.

„Ég hugsa að það sé hluti ástæðunnar, já. Í lágvaxtaheimi hafi fjárfestar farið að leita á nýjar slóðir eftir ásættanlegri ávöxtun.“

Fyrst og fremst hafi löng, áhættulítil skuldabréf á borð við ríkisbréf orðið óspennandi valkostur eins og gefur að skilja enda litla sem enga ávöxtun af þeim að hafa. Á móti hafi bæði skráð hlutabréf og aðrir valkostir eins og óskráð bréf og sjóðir orðið meira aðlaðandi.

„Þróuninni sem við höfum verið að sjá mætti því lýsa sem einskonar endurstillingu eignasafna í þá átt í viðleitni til að hífa arðsemina upp í þau markmið sem sett höfðu verið.“

Nánar er rætt við Mark í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.