Sam­tök iðnaðarins leggjast gegn frum­varpi atvinnuveganefndar um forgangsorku en nefndin leggur fram frumvarpið að beiðni Guð­laugs Þórs Þórs­sonar, orku- og loft­lags­ráð­herra.

„Með fyrir­hugaðri laga­setningu verður sam­keppnis­markaður með raf­orku af­numinn á Ís­landi og mið­stýring inn­leidd. Með því er farið 20 ár aftur í tímann, þegar opnað var á sam­keppnis­markað með raf­orku á Ís­landi,” segir í um­sögn SI í sam­ráðs­gáttinni en frum­varpið er til um­ræðu hjá At­vinnu­vega­nefnd.

Leggja SI þess í stað til að stjórn­völd og Al­þingi leiti allra leiða til að bregðast hratt við rót vandans sem blasir við, sem er raf­orku­skortur, og greiði götu tafar­lausrar upp­byggingar Í raf­orku­kerfinu.

„Tryggt að­gengi að raf­orku er þjóðar­öryggis­mál og for­senda at­vinnu­upp­byggingar um allt land, verð­mæta­sköpunar og út­flutnings til fram­tíðar, orku­skipta og árangurs Í lofts­lags­málum.“

„Það skýtur skökku við að í greinar­gerð frum­varpsins er hvergi minnst á þá stöðu að raf­orku­fram­leiðsla hefur ekki haldið í við þróun sam­fé­lagsins síðast­liðin 15 ár og ekki gerð grein fyrir al­var­legri stöðu í raf­orku­málum landsins. Engin til­raun er gerð til að meta þau víð­tæku á­hrif sem um­rætt laga­á­kvæði myndi hafa á at­vinnu­líf, al­menning, verð­mæta­sköpun, út­flutning, ríkis­sjóð, sam­keppnis­hæfni Ís­lands og stöðu hins markaðs­ráðandi fyrir­tækis á sam­keppnis­markaði með raf­orku,“ segir í um­sögn SI

Sam­tökin segja að ekki sé tekið til­lit til þess að nú þegar eru í gildi á­kvæði sem heimila skerðingu á raf­orku til not­enda. Brýnt er að tæma allar mögu­legar leiðir til að bregðast við stöðunni áður en í­þyngjandi laga­á­kvæði sem þetta eru sett.

Að mati SI brestur Orku­stofnun hæfi til að fara með þau verk­efni sem stofnuninni eru falin í frum­varpinu. Þá þarf að taka þarf á tóm­læti sem birtist í um­ræddu frum­varpi um stöðu nú­verandi stór­not­enda og mögu­leika á fram­lengingu samninga þessara aðila.

„Gagn­rýnis­vert er að ekki er um­fjöllun Í frum­varpinu um á­hrif á þjóð­réttar­legar skuld­bindingar, s. s. vegna EES samningsins, og að sama skapi liggja ekki fyrir upp­lýsingar um hvort og hve­nær boðaðar breytingar verða til­kynntar Eftir­lits­stofnun EFTA (ESA). Gagn­rýni er á túlkun á al­þjónustu­kvöðum sem er ekki í sam­ræmi við inn­tak og mark­mið þeirrar þjónustu. Á Ís­landi er ekki búið að koma á virkum heild­sölu­markaði með raf­orku og að sama skapi hefur ekki verið komið á heimild til handa stór­not­endum til að endur­selja um­fram­ra­forku, sé hún til staðar, inn á markað. ,“ segir meðal annars í frum­varpinu.

SI benda á að markaðs­lausnir hafa ekki verið nýttar til að stýra raf­orku­notkun sem ætti að vera eðli­legt fyrsta skref til að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin. Þá er frum­varpið með sólar­lags­á­kvæði á sama tíma og ekkert bendir hins vegar til þess að staða raf­orku­mála verði orðin betri eftir 1-2 ár. „Heldur bendir allt til þess, miðað við nú­verandi for­sendur, að raf­orku­skortur verði enn meiri. Sam­þykkt frum­varpsins myndi setja slæmt for­dæmi og hætta er á að um­rætt laga­á­kvæði verði í­trekað fram­lengt.“

Í um­sögninni segir að frum­varpið endur­spegli þá al­var­legu stöðu sem er komin upp á Ís­landi í raf­orku­málum. Hér stefnir í raf­orku­skort með nei­kvæðum af­leiðingum fyrir allt sam­fé­lagið.

„Fyrir­huguð laga­breyting endur­speglar hversu al­var­leg staðan er orðin, og felur í sér við­brögð í stað þess að ráðist sé með öllum til­tækum ráðum að rót vandans. Heilt yfir gera sam­tökin al­var­legar at­huga­semdir við boðaðar breytingar. Sam­tökin gagn­rýna harð­lega í þessu sam­hengi hvernig staða í raf­orku­málum er dregin upp í frum­varpinu. Þá má öllum vera ljóst að nú­verandi á­stand ber öll þess merki að raf­orka er af skornum skammti hér á landi, m. ö. o. að við öllum blasir að hér er raf­orku­skortur.”

Þá telja SI það vekja furðu að í greinar­gerð með frum­varpinu sé vísað til þess að vakin hafi verið at­hygli á á­standi mála með erindi Lands­virkjunar á Orku­stofnun í októ­ber á þessu ári.

„Í þessu sam­hengi vísast til þess að Orku­stofnun ber að hafa eftir­lit með sölu­fyrir­tækjum raf­orku og ber þeim fyrir­tækjum að upp­lýsa stofnunina um öll við­skipti með raf­orku, sbr. 19. gr. raf­orku­laga. Er því ekki ljóst hvort og hvernig Orku­stofnun hefur aflað og haldið utan um um­ræddar upp­lýsingar og verið unnt að leggja mat á mögu­lega sölu á raf­orku um­fram þá raf­orku sem stendur til boða hverju sinni.“

Sam­tökin sjá einnig á­stæðu til að gagn­rýna að í frum­varpinu er vísað til raf­orku­spár Orku­stofnunar sem við­miðs um raf­orku­notkun og telja sam­tökin að slík á­ætlunar­gerð sem við­brögð eiga að snúa að verði að byggjast á full­nægjandi og ó­yggjandi gögnum.

Vekur SI at­hygli at­vinnu­vega­nefndar á að það séu til staðar að minnsta kosti þrjár ó­líkar spár um raf­orku­þörf.

„Eru þessar spár sam­hljóma um þá raf­orku­þörf sem komandi orku­skipti kalla á þó að ei­lítið greini þar á milli en aðal­lega þó að spá Lands­nets sé upp­reiknuð og sýni fram á meiri raf­orku­þörf en þær sem fram koma í græn­bókinni. Hins vegar er svo raf­orku­spá Orku­stofnunar sem víkur frá áður­nefndum spám.”

Með frum­varpinu er farið á skjön við reglu­verk EES- samningsins og mark­mið raf­orku­laga um markaðs­opnun. Raf­orku­markaður væri mið­stýrður þar sem við­skipti munu að ó­breyttu fara fram undir eftir­liti og sam­kvæmt sam­þykki opin­bers aðila, þ. e. Orku­stofnunar.

Misbrestir í starfsemi Orkustofnunnar

SI gjalda þess var­hug að Orku­stofnun verði falið jafn viða­mikið hlut­verk og inn­grips­heimildir og lagt er til. Að mati sam­takanna hafa mis­brestir í starf­semi stofnunarinnar tafið veru­lega alla upp­byggingu í raf­orku­kerfinu og því á­lita­mál um hæfi Orku­stofnunar til að fram­fylgja þessu ætlaða hlut­verki.

„Að gefnu til­efni telja SI einnig á­stæðu til að vekja at­hygli at­vinnu­vega­nefndar á mögu­legu van­hæfi Orku­stofnunar til að sinna um­ræddu hlut­verki á grund­velli um­mæla orku­mála­stjóra á opin­berum vett­vangi. Er hér að neðan á­grip af ein­staka um­mælum orku­mála­stjóra sem SI telja á­stæðu til að halda sér­stak­lega á lofti í þessu sam­hengi,” segir í um­sögn SI.

Sam­tökin láta fylgja með í um­sögn sinni um­mæli Höllu Hrundar Loga­dóttur orku­mála­stjóra í Morgun­blaðinu, RÚV og Kjarnanum þar sem Halla Hrund talar gegn raf­orku­markaði og með mið­stýringu.

„Sam­kvæmt framan­greindu er byggt á því að orku­mála­stjóri hafi með til­vÍsuðum um­mælum opin­berað gildis­hlaðnar skoðanir sínar hvað varðar starf­semi fyrir­tækja á sam­keppnis­markaði með raf­orku og not­endur, þá sér­stak­lega stór­not­endur raf­orku og um leið hver vilji orku­mála­stjóra, og þ. a. l. Orku­stofnunar, er varðandi með hvaða hætti og hvernig við­skiptum á frjálsum markaði með raf­orku skuli háttað. Má draga þá á­lyktun að slík opin­ber af­staða Orku­stofnunar sem leyfis­veitanda og eftir­lits­aðila kunni að gefa til kynna hug­læg skil­yrði stofnunarinnar um for­sendur leyfa til að stunda raf­orku­við­skipti.“