Stjórn Skeljar fjárfestingarfélags leggur til við aðalfund félagsins þann 7. mars að veitt verði heimild til að taka upp kaupréttakerfi fyrir starfsmenn félagsins og stjórninni verði heimilað að gefa út allt að 1% af útgefnu hlutafé, eða allt að 18.784.790 hlutum, í kauprétti á árunum 2024-2029.

Hjá Skel, eina skráða fjárfestingarfélaginu á Íslandi, starfa sex manns við stýringu 50 milljarða eignasafns.

„Stjórn telur mikilvægt að takmarka starfsmannaveltu í svo fámennu fyrirtæki, þar sem mikilvæg þekking á starfsemi félagsins og eignasafni getur glatast ef starfsmenn kjósa að láta af störfum. Kaupréttir til lengri tíma eru heppilegt tæki til þess að halda starfsmönnum hjá félaginu,“ segir í greinargerð stjórnar með tillögunni.

Tekið er fram að heimildin myndi ekki ná til þess að úthluta frekari kaupréttum til þeirra lykilstjórnenda sem fengu úthlutað kaupréttum á grundvelli kaupréttaráætlunar sem samþykkt var á aðalfundi hinn 10. mars 2022.

Er þar vísað í umfangsmikla kaupréttarsamninga sem gerðir voru við Ásgeir Helga Reykfjörð Gylfason, forstjóra fjárfestingarfélagsins, og Magnús Ingi Einarsson, fjármálastjóra Skeljar.

Beitt sér fyrir hvatakerfum hjá félögum í eignasafninu

Í greinargerð stjórnar segir að Skel hafi sem hluthafi, og í takt við sína fjárfestingarstefnu, beitt sér fyrir því að þau félög sem Skel fjárfesti í setji á stofn hvatakerfi sem hafa það að markmiði að tengja hagsmuni starfsmanna og hluthafa.

„Skel telur að með skynsamlega innleiddum kaupréttarkerfum aukist líkurnar á góðri rekstrarafkomu til lengri tíma og að félög nái langtímamarkmiðum sínum til hagsbóta fyrir alla sem að þeim koma. Þá telur Skel að starfsmenn eigi að njóta góðs af því þegar vel gengur og ávöxtun hluthafa er góð.“

Framangreind tillaga stjórnar um kaupréttarkerfi hjá fjárfestingarfélaginu sjálfu er sögð lúta að því að starfsmenn Skeljar njóti sambærilegra árangurstengdra starfskjara og Skel hefur beitt sér fyrir að innleidd séu í rekstur þeirra félaga sem fjárfestingarfélagið fjárfestir í.

Skel á ráðandi hlut í Okrunni, Styrkási (móðurfélagi Skeljungs og Kletts), Heimkaupum og Galloni. Auk þess er Skel stærsti hluthafi Kaldalóns fasteignafélags með 15,4% hlut og næst stærsti hluthafi VÍS með 8,2% hlut.

Jón Ásgeir hrifinn af hvatakerfum

Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skeljar, er formaður starfskjaranefndar fjárfestingarfélagsins. Hann var spurður út í kaupréttarsamninga félagsins við forstjóra og fjármálastjóra þess í hlaðvarpsþættinum Chess after Dark haustið 2022.

„Ég hef sagt að það sé bara þannig í rekstri fyrirtækja og í öllu öðru, t.d. fótboltaliðum – menn eru misgóðir. Það er alveg ómögulegt að setja alla undir sama launaþak, sérstaklega í forstjórahlutverkinu sem er eins og að velja bestu íþróttamennina. Þeir kosta mismikið eftir getu,“ sagði Jón Ásgeir.

Hann sagði kauprétti, sem tengja saman hagsmuni forstjóra og hluthafa, hafa sannað gildi sitt á stærri mörkuðum.

„Ég er líka talsmaður þess að menn reyni að koma slíkum kerfum á fyrir fleiri heldur en bara toppaðilana í fyrirtækjum. Það er gott að allir hafi eitthvað upp úr leiknum.“