Tónlistarkonan Beyoncé og Adidas hafa ákveðið að slíta samstarfi sínu, samkvæmt heimildarmönnum Wall Street Journal. Sala á Ivy Park, fatalínu Beyoncé, hefur verið dræm og raunar tapaði þýski íþróttavörurisinn á samstarfinu í fyrra.

Samstarfinu lýkur formlega eftir að Adidas gefur frá sér nýjar vörur undir Ivy Park merkinu síðar í ár.

Sala á vörum úr Ivy Park fatalínu Beyoncé hjá Adidas dróst saman um meira en helming á milli áranna 2021 og 2022 og nam tæplega 40 milljónum dala, eða um 5,5 milljörðum króna, í fyrra. Adidas átti von á að salan yrði í kringum 250 milljónir dala.

Beyoncé fær um 20 milljónir dala, eða um 2,7 milljarða króna, í árlega þóknun frá Adidas vegna samstarfsins sem hófst árið 2019. Í umfjöllun WSJ fyrr í ár sagði að Adidas hefði því tapað á Ivy Park fatalínunni í fyrra.

Adidas varaði nýlega við því að félagið gæti skilað tapi í ár ef ekki tekst að selja birgðir af Yeezy skónum. Ákvörðun um að slíta samstarfi við rapparann Kanye West hefur reynst íþróttavörufyrirtækinu afar kostnaðarsöm.