Fasteignafélagið Þórkatla mun miða leiguverð íbúðarhúsnæðis félagsins við markaðsleigu að teknu tilliti til aðstæðna í Grindavík á hverjum tíma. Ákveðið hefur verið að leigan út þetta ár nemi um 25% af markaðsleigu á Suðurnesjum.

Í tilkynningu segir að leigan verði í kringum 625 krónur á fermetra út þetta ár. Það verður því til dæmis hægt að leigja 100 fermetra hús í Grindavík á 62.500 krónur á mánuði. Auk þess greiðir leigutaki hita og rafmagn.

Félagið hefur ákveðið að fyrst um sinn verði fasteignir eingöngu leigðar til fyrri eigenda þeirra. Félagið mun síðan kynna nánari tilhögun á leigu eignanna á næstunni. Þegar fram líða stundir verður skoðað að leigja út til annarra þær eignir í Grindavík sem seljendur hafa ekki óskað eftir forgangsrétti til.

Jafnframt segir að þegar til lengri tíma er litið verði horft til markaðsleigu við leigu fasteigna til fyrri eigenda en tekið tillit til aðstæðna í bænum á hverjum tíma.

Leiguverðið mun taka mið af brunabótamati eignanna og mánaðarleigan miðast við 0,5% af brunabótamati á hvern fermetra. Þetta þýðir að fyrir hús þar sem brunabótamat á fermetra er 500.000 krónur verður leigan, áður en tekið er tillit til aðstæðna í Grindavík, 2.500 krónur á fermetra.