Ljósleiðarinn, dótturfélag Orkuveitunnar, skilaði 570 milljóna króna tapi árið 2023, samanborið við 87 milljóna tap árið 2022. Félagið birti ársuppgjör í dag.

Tekjur Ljósleiðarans jukust um 16,7% milli ára og námu 4.349 milljónum króna í fyrra. Rekstrarkostnaður félagsins jókst um 43% og nam 1,6 milljörðum en það skýrist m.a. af 107 milljóna einskiptiskostnaði stofnnets. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) jókst lítillega og nam 2,7 milljörðum.

Afskriftir á síðasta ári námu 1.660 milljónum og jukust um 17% frá fyrra ári. Þá jukust hrein fjármagnsgjöld úr 1,4 milljörðum í rúma 1,8 milljarða.

Draga úr fjárfestingum fram að hlutafjáraukningu

Eignir Ljósleiðarans jukust úr 33,4 milljörðum í 37,2 milljarða milli ára. Eigið fé nam 12,9 milljörðum og var eiginfjárhlutfall 34,7% í árslok 2023 samanborið við 40,4% ári áður.

Í tilkynningu Ljósleiðarans kemur fram að dregið verði úr fjárfestingum félagsins þangað til niðurstaða fæst í áformaða hlutafjáraukningu félagsins. Undanfarna mánuði hafa stjórnendur Ljósleiðarans átt kynningarfundi með innlendum og erlendum fjárfestum á markaði vegna áformaðs útboðs.

Einar Þórarinsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans, segir að hlutafjáraukningin hafi verið hugsuð til að styrkja fjárhaginn í tengslum við fjárfestingu í fjarskiptakerfi sínu, m.a. með kaupum á stofnneti Sýnar, og aðra arðbæra uppbyggingu til framtíðar.

Ljósleiðarinn hefur lýst því yfir að til standi að nýta hluta andvirðis hlutafjáraukningunnar til að greiða niður skuldir.

„Við hlökkum til að eiga samtal við nýja meðeigendur Orkuveitunnar að félaginu um áframhaldandi uppbyggingu enda fer þörfin fyrir áreiðanlega innviði fjarskipta bara vaxandi,“ segir Einar í tilkynningunni.

Einar Þórarinsson hóf störf sem framkvæmdastjóri Ljósleiðarans síðasta haust. Hann tók við starfinu af Erling Frey Guðmundssyni, sem lét af störfum í lok júní.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Ætluðu að klára hlutafjáraukninguna fyrir ári

Ljósleiðarinn tilkynnti fyrst sumarið 2022 um að félagið væri að stefna að hlutafjáraukningu, m.a. til að fjármagna nýjan landshring fjarskipta og bæta fjármagnsskipan félagsins.

Fyrirhuguð hlutafjáraukning, með aðkomu annarra fjárfesta en OR, var samþykkt á hluthafafundi í lok október 2022 með fyrirvara um staðfestingu eigenda, einkum Reykjavíkurborgar. Stefnt var að ljúka hlutafjáraukningunni fyrir lok fyrsta ársfjórðungs 2023.

Þau hafa ekki staðist, sem má m.a. rekja til þess að endanlegt samþykki eigenda OR fékkst ekki fyrr en í byrjun maí, en málið hafði þá verið í meðferð hjá borginni í hálft ár.

Á hluthafafundi Ljósleiðarans í september síðastliðnum var samþykkt uppfærð tillaga stjórnar um hlutafjáraukninguna. Alls stendur til að auka hlutfé með aðkomu utanaðkomandi fjárfesta. Hið nýja hlutafé getur mest numið 33,3% af heildarhlutafé Ljósleiðarans eftir hlutafjáraukningu.

Stefnt er að lokuðu útboði þar sem „langtíma fjárfestum sem tengjast almannahagsmunum og aðilum, sem hafi til að bera reynslu og þekkingu, sem nýtist Ljósleiðaranum sérstaklega“ verði boðið að gera tilboð. Jafnframt er stefnt að dreifðu eignarhaldi meðal væntanlegra hluthafa.