HMS hefur lokað tímabundið fyrir umsóknir um hlutdeildarlán þar sem samþykktar lánsfjárheimildir ársins til veitingar lánanna eru fullnýttar, að því er kemur fram í tilkynningu á vef stofnunarinnar.

„Fyrir Alþingi liggur frumvarp til fjáraukalaga þar sem gert er ráð fyrir auknum lánsfjárheimildum vegna hlutdeildarlána sem er hluti af aðgerðum stjórnvalda til stuðnings við kjarasamninga,“ segir í tilkynningu HMS.

Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2024 var heimild til veitingar hlutdeildarlána upp á 3 milljarða króna. Í frumvarpi til fjáraukalögum er kveðið á um að hækka fjárhæðina úr 3 milljörðum í 4 milljarða.

Verði frumvarpið samþykkt og HMS tryggt aukið fjármagn hjá ríkissjóði á grundvelli laganna verður opnað fyrir umsóknir að nýju. HMS vonast til að hægt verði að opna fyrir úthlutun í júní.