Við lokun markaða í dag birtist flöggun vegna breytinga á atkvæðisrétt Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, LSR, sem fer nú með 10,6% hlut í Sýn eftir viðskipti dagsins. Lífeyrissjóðurinn keypti 2,9 milljónir hluta, eða tæplega eitt prósent hlut, en fjárfestingin nemur 174 milljónum króna ef miðað er við lokagengið 60 krónur á hlut.
Hlutabréfaviðskipti með Sýn hefur verið mikið í deiglunni í vikunni en fjárfestingafélagið Urus, sem er í eigu Heiðars Guðjónssonar forstjóra Sýnar, keypti 2 milljónir hluta í Sýn og varð þar með stærsti eigandi Sýnar með 12,7% hlut ef framvirkir samningar eru teknir með í reikninginn. Hlutafjárútboð Nova stendur nú yfir en fjárfestar hafa verið að bera saman virði fjarskiptafyrirtækja á íslenskum hlutabréfamarkaði. Hlutabréf Sýnar hafa hækkað um 9,09% á síðastliðnum mánuði.
Sjá meira: Heiðar kaupir fyrir 115 milljónir í Sýn.
Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,43% í viðskiptum Kauphallarinnar í dag. Heildarvelta á aðalmarkaði var 3,3 milljarðar króna. Átta af 20 félögum voru græn í viðskiptum dagsins en fjögur voru rauð.
Hlutabréf Icelandic Seafoods International fór upp um 2,63% í 11 milljóna króna viðskiptum og hækkuðu mest í dag. Gengið er nú í 9,75 krónum á hlut en það hefur lækkað um 0,51% á síðastliðnum mánuði. Hlutabréf VÍS lækkuðu mest í dag eða um 1,76% í 167 þúsund króna viðskiptum. Gengið er nú 16,7 krónur á hlut en það hefur lækkað um 3,47% á síðastliðnum mánuði.
Mesta veltan var með bréf Marel en hún nam 661 milljónum en gengi bréfanna er nú 610 krónur á hlut.