Samstæða Málningar ehf. skilaði 175 milljóna króna hagnaði á síðasta ári samanborið við 263 milljóna hagnað árið 2020, samkvæmt nýbirtum ársreikningi.

Sala félagsins, sem rekur málningarverksmiðju í Kópavogi og málningarvöruverslanir í Reykjavík, Hafnarfirði, Keflavík, Akureyri og Selfossi, dróst lítillega saman á milli ára og nam 2,8 milljörðum. Rekstrarhagnaður félagsins lækkaði um 92 milljónir á milli ára og nam 208 milljónum.

Eignir samstæðunnar voru bókfærðar á 1.736 milljónir í lok síðasta árs sem er aukning um 184 milljónir frá fyrra ári. Eigið fé var 1,3 milljarðar og eiginfjárhlutfall Málningar var því um 75%.

Samstæðan er í eigu Framherja ehf, sem er að mestu leyti í eigu hjónanna Valdimars Bergstað og Halldóru Baldvinsdóttur. Framherji er móðurfélag Líru ehf., sem var fjórði stærsti hluthafi Controlant með 4,7% hlut í lok síðasta árs, samkvæmt frétt Innherja, sem var milljarða króna virði. Þá á Framherji 16% hlut í Landeldi.