Fyrir einungis átta mánuðum síðan varð Nvidia fyrsti ör­flögu­fram­leiðandinn til að ná markaðs­virði yfir 1.000 milljarða Banda­ríkja­dali. Síðan þá hefur virði fé­lagsins næstum tvö­faldast en við lokun markaða í gær nam markaðs­virði fé­lagsins um 1.800 milljörðum dala.

Gerir það Nvidia þriðja verð­mætasta fyrir­tækið á markaði í Banda­ríkjunum á eftir Micros­oft og App­le.

Gengi Nvidia hefur hækkað um 51% það sem af er ári og 251% síðast­liðið ár.

Nvidia mun birta árs­upp­gjör á mið­viku­daginn en sam­kvæmt The Wall Street Journal er á­ætlað að tekjur fé­lagsins muni vera um 59 milljarðar dala á fjár­hags­árinu sem endar í janúar. Sam­svarar það um 8.137 milljörðum króna króna á gengi dagsins.

Verði það raunin er það mun meiri tekju­aukning milli ára en stóru tækni­fyrir­tækin App­le, Micros­oft, Amazon, Meta og Alp­habet hafa nokkrum sinnum skilað.

Greiningar­aðilar spá því einnig að tekjur fyrir­tækisins muni þre­faldast á fyrsta fjórðungi þessa árs miðað við árið 2023 og verði um 21,6 milljarðar dala en fé­lagið birti árs­hluta­upp­gjör í apríl.

Því er einnig spáð að tekjur fé­lagsins á árinu 2024 muni aukast um 56% og verði um 92 milljarðar dala eða um 12.700 milljarðar króna á gengi dagsins fyrir fjár­hags­árið sem endar í janúar 2025.