Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Prósent telja 73% þjóðarinnar að íslenska ríkið eigi að leggja aukið fjármagn í aðgerðir til að koma í veg fyrir riðu í sauðfé.

Aðspurð sögðust 35% vera mjög sammála og voru 38% frekar sammála. Aðeins 3% sögðust vera ósammála og tóku 21% enga afstöðu. Marktækur munur var á afstöðu fólks eftir búsetu en 86% þeirra sem búa á Norðurlandi voru sammála miðað við 68% hjá höfuðborgarbúum.

Riða var staðfest í apríl á þessu ári á bænum Bergsstöðum í Vestur-Húnavatnssýslu og var það í fyrsta skipti sem riða greindist í Miðfjarðarhólfi. Var þá hátt í 690 kindum lógað og breyttist skilgreining bæjarins í sýkt svæði sem þýðir að óheimilt er nú að flytja sauðfé milli hjarða í hólfinu.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Í sama mánuði féllst Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra á tillögu yfirdýralæknis um breytta aðferðarfræði við útrýmingu riðuveiki. Tillagan felst í því að markvisst verði unnið að hraðari ræktun riðuþolsins sauðfjárstofns á ræktunarsvæðum sem skilgreind eru sem áhættusvæði.

Samkvæmt greinargerð Landbúnaðarháskóla Íslands nemur kostnaður við þessar aðgerðir 567 milljónum á næstu sjö árum.