Viðskipti með sérbýli á höfuðborgarsvæðinu virðast leiða hækkanir á fasteignamarkaði. Samkvæmt mælingum Hagstofunnar nemur 12 mánaða hækkun íbúðaverðs 17% í sérbýli og 14% í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu. Alls mælist hækkunin 8% utan höfuðborgarsvæðisins. Þetta kemur fram í nýútkominni Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans .

Eftirspurnin eftir sérbýliseignum hafi aukist verulega í covid faraldrinum og segir ú Hagsjánni að mögulega hafi íbúðamarkaðurinn utan höfuðborgarsvæðisins getað mætt þeirri eftirspurn betur með þeim afleiðingum að verðhækkanir eru hóflegri þar.

Árborg og Reykjanesbær leitt hækkanir

„Víða finnast þó einstaka þéttbýliskjarnar þar sem verðhækkanir eru meiri en á höfuðborgarsvæðinu, til að mynda Árborg, þar sem íbúðaverð hækkaði um 18% milli ára á öðrum ársfjórðungi samkvæmt athugun úr Verðsjá Þjóðskrár Íslands. Til samanburðar mældist hækkunin 15% á höfuðborgarsvæðinu. Sé litið til þróunar frá upphafi árs 2015 í nokkrum af stærstu þéttbýliskjörnum landsins má sjá að almennt hefur íbúðaverð hækkað mest í Árborg og því næst Reykjanesbæ. Sveiflur eru þó mjög miklar í verði eftir því sem kjarnarnir eru minni," segir í Hagsjánni.

Íbúðasala hafi verið mikil um allt land frá því að faraldurinn hófst og mælist nú allt að 60% meiri að jafnaði en fyrir ári síðan. Mesta aukningin sé að Suðurnesjum.

„Þar seljast nú að jafnaði yfir 100 íbúðir á mánuði, en fjöldinn var um 70 fyrir ári síðan. Þróunin virðist vera nokkuð áþekk um land allt. Mánaðarlegur fjöldi undirritaðra kaupsamninga hefur aukist mjög frá miðju ári 2020 og er víða orðinn meiri en nokkru sinni fyrr," segir jafnframt í Hagsjá.

Loks er bent á að faraldurinn hafi aukið svigrúm margra til fasteignakaupa vegna lægri vaxta, færri ferðalaga og aukins sparnaðar. Einnig hafi heimavinna aukist og þar með möguleikar fólks á búsetu fjarri vinnu. Það gæti hafa aukið áhuga fólks á að fjárfesta í húsnæði utan höfuðborgarsvæðisins þar sem framboð sérbýliseigna er meira.