Endurgreiddur kostnaður alþingismanna við utanlandsferðir á fyrri hluta þessa árs nam hátt í 42 milljónum króna og jókst um 48% á föstu verðlagi samanborið við sama tímabil í fyrra og kostnaður við uppihald í slíkum ferðum jókst um 62%.

Þrátt fyrir að leiðrétt sé fyrir verðlagi þarf að leita aftur til ársins 2008 – þegar botninn hrundi úr gengi krónunnar – til að finna meiri útgjöld vegna utanlandsferða þingmanna á hálfs árs tímabili.

Verðbólga náði sínu hæsta gildi frá hruni þegar hún rauf 10% múrinn í febrúar, nokkrum mánuðum eftir að seðlabankastjóri hafði látið fræg ummæli um utanlandsferðir falla.

Fræðslu- og ráðstefnuferðir þingnefnda meðal skýringa

Þrjár af átta fastanefndum þingsins fóru í fræðsluferðir á fyrri hluta ársins, en hver nefnd hefur heimild fyrir einni slíkri ferð á kjörtímabili. Á fyrstu þremur mánuðum ársins fór umhverfis- og samgöngunefnd til Bretlands, fjárlaganefnd til Parísar og atvinnuveganefnd til Þórshafnar og Osló.

Þá fór framtíðarnefnd – ellefu manna þingnefnd sem ekki er fastanefnd en mun starfa út kjörtímabilið – í tvær hópferðir í fyrra, og þessa stundina er hluti hennar staddur á ráðstefnu framtíðarnefnda í Úrúgvæ.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun. Meðal þess sem þar má finna er listi yfir ferðakostnað hvers þingmanns.