Saudi Aramco, ríkisolíufélag Sádi-Arabíu, hagnaðist um 161 milljarð dollara eða tæplega 23 þúsund milljarða króna, á síðasta ári. Er þetta methagnaður hjá félaginu.

Hækkun olíuverðs á síðasta ári hafði gríðarleg áhrif á afkomu Aramco. Telja forsvarsmenn félagsins að hagnaðurinn hafi aukist um 46% vegna olíuverðshækkana á alþjóðamarkaði.

Aramco er eitt verðmætasta félag veraldar en markaðsvirði þess er um 1.900 milljarðar dollara. Aðeins eitt félag er verðmætara en það er Apple en markaðsvirði þess er tæplega 2.300 milljarðar dollara.

Í maí í fyrra skaust Aramco tímabundið upp fyrir Apple, sem verðmætasta félag heims en Apple náði svo toppsætinu aftur. Þriðja verðmætasta félag heims er Microsoft.