Raunverð atvinnuhúsnæðis er nú við toppinn sem náðist árið 2008 samkvæmt Hagvísum Seðlabanka Íslands. Þó er settur fyrirvari við þessar tölur enda um að ræða vegið meðaltal viðskipta með iðnaðar-, verslunar- og skrifstofuhúsnæði.

Oft á tíðum eru fáar mælingar bak við hvert gildi og erfitt getur verið að bera eiginleika húsnæðis saman vegna ólíks aldurs og staðsetningar. Þá hefur verið nokkuð um að aðilar skipti á atvinnuhúsnæði eða lóðum og einnig er nokkuð um að tengdir aðilar eigi í viðskiptum með atvinnuhúsnæði, þar sem langtíma leigusamningur fylgir í kaupunum.

20 þúsund fermetrar losna

Í kynningu Samúels Torfa Péturssonar hjá VSÓ um þróun í Kvosinni og nágrenni í miðbæ Reykjavíkur á fundinum, Athafnaborgin 2022, í apríl kom fram að um 20 þúsund fermetrar af atvinnuhúsnæði væru að losna í miðborginni vegna framkvæmda og flutninga hjá opinberum aðilum og fyrirtækjum í eigu ríkisins.

Samúel benti á að um 100 þúsund fermetrar hefðu bæst við í kvosinni og nágrenni á rúmum tíu árum. Stefnt væri að því samkvæmt skipulagi að bæta við um 46 þúsund fermetrum sem samsvari nærri því nýrri Smáralind eða 8% aukningu. Fullbyggð verði kvosin því um 580 þúsund fermetrar af atvinnuhúsnæði.

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Fasteignamarkaður sem fylgdi Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn, 26. janúar.