Íslendingar veðjuðu samtals 28.600 evrum í gær, á það hvort eldgos myndi hefjast fyrir 1. desember, eða sem nemur rúmlega 4,3 milljónum króna.

Veðmálasíðan Coolbet opnaði fyrir stuðla í gær um ellefuleytið, en lokuðu fyrir þá um sjöleytið sama dag þegar greint var frá því að sprunga hefði myndast á Grindavíkurvegi.

Í fyrstu var stuðullinn á „Já“ 1.55 og stuðullinn á „Nei“ 2.20. Það þýðir að ef einhver hefði sett 1.000 krónur á „Já“ hefði sá hinn sami fengi 1.550 krónur til baka.

Mikill meirihluti veðmála voru á „Já“, þ.e. að eldgos myndi hefjast fyrir 1. desember, eða um 24.500 evrur af 28.600 evrum. Sjálfkrafa lækkaði stuðullinn því á „Já“ hratt þegar líða tók á daginn, og var stuðullinn kominn niður í 1.20 áður en Coolbet lokaði fyrir veðmál um eldgosið.