Afkoma sveitarfélaga landsins hefur versnað nokkuð á síðustu árum. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga við fjármálaáætlun 2025-2029 er athygli vakin á því að langvarandi hallarekstur A-hluta sveitarfélaga sýni að tekjur standi ekki undir þeirri grunnþjónustu sem þeim er ætlað að veita.

Er það þrátt fyrir breytingar á útsvari í byrjun síðasta árs vegna fjármögnunar við fatlað fólk.

Kallar sambandið eftir samtali um útvíkkun tekjustofna sveitarfélaga. Í því samhengi hafa ýmsir möguleikar verið nefndir undanfarin ár, meðal annars að sveitarfélögin fái hlutdeild í skattstofnum á borð við fjármagnstekjuskatt, gistináttaskatt og kílómetragjaldi.

Einnig nefnir sambandið afnám undanþágu um álagningu fasteignaskatts á virkjanir.

„Viðvarandi hallarekstur sveitarfélaga er ekki náttúrulögmál heldur verkefni sem ríki og sveitarfélög geta leyst í sameiningu ef vilji er fyrir hendi,“ segir í umsögn sambandsins.

Á sama tíma er þó fyrirséð að ríkissjóður verði rekinn með halla næstu ár og því erfitt að sjá að mikið svigrúm sé til aðgerða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.