Nýja flugfélagið Niceair hefur tilkynnt að það muni aflýsa fyrirhuguðum flugum til Englands í júní „í ljósi vandkvæða“. Félagið hefur tekið flug til Bretlands úr sölu og verða þau ekki bókanleg fyrr en varanleg lausn er komin á málið. Niceair mun bjóða öllum farþegum endurgreiðslu, og hjálpa þeim sem vilja að komast á áfangastað erlendis eða heim aftur.

Flugfélagið neyddist til að fljúga með hálftóma vél frá London til Keflavíkur eftir að efasemdir komu upp á Stansted-flugvellinum um flugrekstrarleyfi Hifly, sem leigir út Niceair vélar. Farþegar sem áttu bókað flug með félaginu frá London til Íslands voru sendir heim með öðru flugfélagi. Um var að ræða fyrsta áætlunarflug Niceair frá London.

„Eftir því sem næst verður komist felst vandinn m.a. í því að Ísland er með tvíhliða samning við Bretland um flugþjónustu og Bretland er með sams konar samning við Evrópusambandið. Þessir tveir samningar skarast í Bretlandi. Vandamálið byrjar þegar flytja á farþega frá Bretlandi til Íslands af flugrekanda með heimilisfesti í Evrópusambandinu (en ekki í Bretlandi eða á Íslandi).“

Akureyrska flugfélagið, sem var stofnað í byrjun árs, segir að áhyggjuefni Breta snúi að neytendavernd, en eftir Brexit viðurkenni Bretar ekki lengur sjálfkrafa víðtæk neytendavarnarlög sem fylgja evrópskum (EU) flugrekendaskírteinum samkvæmt reglugerð EU261/2004.

„Bresk yfirvöld vildu einnig meina að okkar ágætu samstarfsaðilar hefðu ekki heimildir til flugs til og frá Bretlandi, en þeir eru samt sem áður á lista yfir viðurkennda flugrekendur af breskum stjórnvöldum. Að auki var gerð krafa um að Niceair, íslenskt fyrirtæki, hefði breskt ferðaskrifstofuleyfi til sölu pakkaferða (flug, gisting, bílaleigubílar), sem er ekki starfsemi sem Niceair er í. Hvergi var minnst á þessi atriði í þriggja mánaða umsóknarferli um lendingarheimildir og stæði á flugvöllum í Bretlandi.“

Voru ekki líklegir til að samþykkja lausnina fyrir helgi

Flugfélagið sem, Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson stýrir, segir að önnur flug hafi gengið vel og engin vandamál komið upp í tengslum við Danmörku og Tenrife og bendir á að þeir áfangastaðir séu innan samevrópska flugsvæðisins.

„Við höfum unnið sleitulaust að lausnum og lagt mikið af útfærslum á borð breskra yfirvalda. Við gerð tillagna höfum við notið öflugs liðsinnis Samgöngustofu, utanríkisráðuneytis og breska sendiráðsins, en allt komið fyrir ekki. Framundan er helgi í Bretlandi og það að heyra á Bretum að ólíklegt sé að sú lausn sem er á borðinu verði samþykkt í tæka tíð vegna skorts á tíma og mannafla.“