Norski olíusjóðurinn hefur ráðlagt norska fjármálaráðuneytinu að taka sérstaklega til skoðunar að auka heimildir sjóðsins til að fjárfesta í óskráðum félögum. Bloomberg greinir frá.

Sjóðurinn er stærsti staki eigandi skráðra hlutabréfa í heimi með um 1,5% af hlutdeild á hlutabréfamörkuðum heims. Sjóðnum er hins vegar almennt ekki heimilt að fjárfesta í óskráðum hlutabréfum.

Markaður með óskráð bréf farið stækkandi

Í bréfi sínu til fjármálaráðuneytisins segist olíusjóðurinn sjá merki um að sístærri hluti af verðmætasköpun eigi sér stað hjá óskráðum félögum og að markaður með óskráð hlutabréf hafi stækkað á undanförnum árum.

Olíusjóðurinn bendir á að stýrihópur sem norska fjármálaráðuneytið skipaði árið 2017 hefði áætlað að markaður með óskráð hlutabréf væri um 5% af stærð markaðarins með skráð hlutabréf. Seðlabanki Noregs áætli að hlutfallið sé í kringum 8% í dag.

Þá hafi skráðum félögum farið fækkandi á stórum þróuðum mörkuðum á borð við Bandaríkin, Bretland og evrusvæðið. Auk þess séu fyrirtæki sem fara á markað í dag eldri og stærri en á árum áður.

„Þessi þróun gæti þýtt að sjóðurinn missi af vaxandi hluta af verðmætasköpun fyrirtækja með því að bíða þar til þau eru skráð.“

Áður óskað eftir auknum heimildum

Þjóðarsjóðurinn hefur áður óskað eftir auknum heimildum til að fjárfesta í óskráðum hlutabréfum. Árið 2018 sagði sjóðurinn að fjárfesting í óskráðum hlutabréfum myndi auka ávöxtun sjóðsins og leiða til aukinnar áhættudreifingu. Fjármálaráðuneytið hafnaði tillögu þess efnis að auka fjárfestingarheimildir sjóðsins.

Norski olíusjóðurinn er stærsti þjóðarsjóður heims með um 12,9 þúsund milljarða norskra króna, eða um 185 þúsund milljarða íslenskra króna, í stýringu.