Hlutabréfaverð bandaríska ör­flögu­fram­leiðandans Nvidia hækkaði um meira en 9% í viðskiptum dagsins. Gengi hlutabréfa Nvidia er þar með komið yfir þúsund dali á hlut en til samanburðar var það undir 500 dölum í upphafi árs og hefur markaðsvirði félagsins því meira en tvöfaldast í ár.

Nvidia, sem framleiðir örflögur sem nýtast í gervigreind, birti í gærkvöldi uppgjör síðasta ársfjórðungs, sem lauk 28. apríl. Tekjur félagsins meira en þrefölduðust milli ára og námu 26 milljörðum dala á fjórðungnum.

Þá hagnaðist félagið um 14,9 milljarða dala á fjórðungnum, samanborið við 2 milljarða dala á sama tímabili í fyrra.

Síðasti ársfjórðungur var metfjórðungur hjá Nvidia, bæði hvað tekjur og afkomu varðar. Eins var rekstrarniðurstaðan talsvert yfir væntingum greiningaraðila, að því er segir í frétt Wall Street Journal.