Frágangur er ný rafræn lausn sem sérhæfir sig í að ganga frá ökutækjaviðskiptum fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Allt ferlið er 100% rafrænt, engin skjöl eru prentuð á pappír. Allar nauðsynlegar undirritanir eru rafrænar sem tryggir öruggari og einfaldari ökutækjaviðskipti segir í fréttatilkynningu félagsins.

Frágangur er með samstarfssamning við helstu lánveitendur landsins, Arion banka, Landsbankann, Lykil, Ergo, Borgun og Pei. Vettvangurinn getur því séð um alla umsýslu tengda fjármögnun á ökutækjum, en lausninni er ætlað að koma í veg fyrir að ökutæki gangi kaupum og sölum hérlendis án gerð kaupsamnings sem sagt er hafa oft komið í bakið á kaupanda og/eða seljanda bifreiðar.

Frágangur útbýr lögmætan kaupsamning og afsal sem tryggir öryggi bæði kaupanda og seljanda ef eitthvað óvænt kemur upp síðar. Þar að auki gera lánveitendur kröfu um að lögmætur kaupsamningur og afsal sé gert á milli aðila áður en lánveiting er samþykkt.

Frágangur var stofnaður af tæknifrumkvöðlinum Helga Pjetri Jóhannssyni og bifreiðasölunum Grétari G. Hagalín og Steinari Þór Guðjónssyni. Helgi Pjetur hefur stofnað mörg tæknifyrirtæki, en meðal þeirra sem hann hefur komið að stofnun eru Alfreð, Aur, Leggja og Stokkur. Grétar og Steinar eiga og reka Netbifreiðasöluna, NBS.is, að Hlíðasmára 13, Kópavogi.