Súkkulaðiframleiðandinn Omnom hagnaðist 34 milljónir króna á síðasta ári og jókst hagnaður um 4 milljónir frá fyrra ári.

Rekstrartekjur námu 530 milljónum króna og jukust um 21% frá árinu áður. Rekstrarhagnaður fyrir fjármunatekjur og fjármagnsgjöld námu 52 milljónum króna og stóð nánast í stað frá fyrra ári, rétt eins og rekstrarhagnaður fyrir afskriftir sem nam 75 milljónum króna. Eignir námu 352 milljónum króna á lokadegi síðasta árs, skuldir 188 milljónum króna og eigið fé 164 milljónum króna. Eiginfjáhlutfall var því 47%. Laun og launatengd gjöld námu 213 milljónum króna en 22 störfuðu að jafnaði hjá félaginu í fyrra.

Omnom er í 42% eigu Óskars Þórðarsonar. Kjartan Gíslason á 15% hlut og restin er í eigu félaganna Impact Capital Partners XI, LP og Impact Capital Partners X, LP.

Fréttin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 1. september.