Í ársuppgjöri Play sem birtist fyrr í þessum mánuði var tilkynnt um að hafinn væri undirbúningur á hlutafjáraukningu þar sem félagið ráðgerir að sækja allt að þrjá til fjóra milljarða króna í nýtt hlutafé. Á dögunum var svo greint frá því að félagið hefði safnað áskriftarloforðum frá stærstu hluthöfum að fjárhæð 2,6 milljarða króna á útgáfugenginu 4,5 krónur á hlut.

Þetta er í annað sinn sem félagið ræðst í hlutafjáraukningu frá skráningu á First North-markaðinn sumarið 2021. Í nóvember 2022 jók félagið hlutafé sitt um 2,3 milljarða króna með samningum við tuttugu stærstu hluthafa sína. Skömmu síðar var efnt til hlutafjárútboðs fyrir aðra en tuttugu stærstu hluthafa og hefði náðst full áskrift hefði félagið safnað einum milljarði til viðbótar. Aftur á móti tók enginn þátt í útboðinu enda var markaðsgengi hlutabréfa félagsins lægra en gengið sem stóð til boða.

Rétt eins og í ofangreindu 3 til 4 milljarðar hlutafjárútboði sem boðað hefur verið til höfðu skilaboð Play út á markaðinn ekki bent til þess að þörf væri á hlutafjáraukningu. Þannig hafði Birgir Jónsson, forstjóri Play, oftar en einu sinni tjáð fjölmiðlum að Play þyrfti ekki að sækja nýtt hlutafé nokkrum mánuðum áður en hún var svo boðuð.

Hlutafjárútboðið í nóvember 2022 gæti dregið dilk á eftir sér en eins og Viðskiptablaðið greindi frá á dögunum er Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) með til rannsóknar möguleg brot Play á lögum um aðgerðir gegn markaðssvikum. Umrædd rannsókn snýr að upplýsingagjöf í kringum hlutafjáraukninguna. For­stjóri Play sagði í samtali við Viðskiptablaðið að ekki sé verið að rann­saka nein við­skipti tengd hlutafjár­aukningunni heldur snúi rannsóknin að upp­lýsinga­gjöf í tengslum við upp­færða af­komu­spá vegna hluta­fjár­aukningarinnar.

Play var eins og fyrr segir skráð á First North-markaðinn í júlí 2021 að undangengnu almennu hlutafjárútboði þar sem félagið sótti 4,3 milljarða króna. Vorið 2021 hafði Play að auki tryggt sér tæplega 7 milljarða króna í nýtt hlutafé. Meðal þátttakenda í því útboði voru fjárfestingarfélögin Stoðir, Fiskisund og Brimgarðar og lífeyrissjóðirnir Birta og Lífsverk.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.