OPEC+, samtök olíuframleiðsluríkja, hafa náð samkomulagi um að draga úr olíuframleiðslu um sem nemur einni milljón tunna á dag. Jafnframt mun Sádi-Arabía framlengja eigin skerðingu sem hljóðar upp á sambærilegt magn.

Í umfjöllun Wall Street Journal segir að gert sé ráð fyrir að þessi ráðstöfun muni ýta olíuverði upp á sama tíma og spenna á alþjóðasviðinu, og þá einkum í Mið-Austurlöndum er að aukast.

Verð á framvirkum samningum af Brent hráolíu hækkaði um meira en 1% í kjölfar þess að ákvörðunin spurðist út, upp í 84 dali á hlut. Síðan þá hefur verðið lækkað aftur og er komið undir 83 dali á tunnu.

Ákvörðun OPEC+ var tekin á fundi samtakanna sem haldinn var í dag. Fundinum var í síðustu viku frestað um fjóra daga sem rakið er til þess ákveðin aðildarríki voru hikandi við skerðingar. Í umfjöllun Financial Times segir að Sádi-Arabíu hafi tekist að ná fram skerðingar á framleiðslu þvert á aðildarríki samtakanna en konungsríkið hafði hótað að auka framleiðslu ef ekki næðist samkomulag á fundinum.