Félagið Bohemian Hotels ehf., í samstarfi við Hilton, hefur undirritað samning um byggingu og rekstur tveggja hótela á Íslandi, annars vegar 70 herbergja hótel á Akureyri og hins vegar hótel í Bríetartúni.

„Þessir samningar marka ákveðin tímamót í hótelgeiranum á Íslandi og færa Akureyri gistingu og þægindi á heimsmælikvarða til jafns við Reykjavík,“ segir í tilkynningunni.

Bohemian Hotels ehf. er í eigu Luxor ehf. og Concordia ehf. Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, fyrrum forstjóri Icelandair Hotels sem heitir í dag Berjaya Hotels Iceland, og Þorsteinn Arnar Guðmundsson fara fyrir Concordia. Jens Sandholt húsasmíðameistari er eigandi Luxor en hann er sagður hafa náð markverðum árangri á sviði bygginga- og verkefnastjórnunar, þar á meðal á Reykjavík Marina Hótels.

Stefna að opnun á Akureyri sumarið 2025

Hótelið í miðbæ Akureyar mun heita „Skáld“ Hótel Akureyri og verður hluti af Curio Collection by Hilton. Stefnt er að opnun sumarið 2025 og mun hótelið bjóða upp á „70 vandlega hönnuð herbergi þar sem nútímaþægindum er blandað saman við menningararfleifð Íslands“.

Mynd af hinu fyrirhugaða hóteli á Akureyri.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Opna í Bríetartúni vorið 2026

Samningurinn við Hilton nær einnig yfir annað hótel, sem staðsett verður við Bríetartún í Reykjavík, og opnar vorið 2026. Ekki er gefið upp hvað það hótel mun innihalda mörg herbergi.

Í tilkynningunni segir að umrætt hótel muni bjóða upp á „hágæða lífsstílsupplifun undir einu af þekktustu vörumerkjum Hilton“. Hótelið verður við hliðina á Frímúrarahöllinni steinsnar frá hinu Hlemm svæðinu.

Hótelið verður við hliðina á Frímúrarahöllinni.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Ísland er ótrúlega vinsæll ferðamannastaður og við erum spennt að stækka eignasafn okkar á þessum einstaka áfangastað, auk þess að færa fyrsta alþjóðlega vörumerkið í sjálfan höfuðstað Norðurlands. Lífsstílsvörumerki Hilton hafa stöðugt skapað tækifæri til vaxtar á evrópskum mörkuðum og erum við, í samstarfi við eigendur eins og Bohemian Hotels ehf., spennt að auka enn frekar umsvif okkar á Íslandi,“ er haft eftir Nick Smart, framkvæmdastjóra þróunarsviðs Hilton á Bretlandi, Írlandi og Norðurlöndunum.

Fremri röð frá vinstri: Nick Smart, Lilja Alfreðsdóttir, Jens Sandholt, Magnea Þórey Hjálmarsdóttir. Aftari röð: Þorsteinn Örn Guðmundsson, Hjördís Þórhallsdóttir, Sigrún Björk Jakobsdóttir, Elín Lára Edvards og Stephan Croix.
© Aðsend mynd (AÐSEND)