Starborne Frontiers, nýi tölvuleikur íslenska fyrirtækisins Solid Clouds er nú orðinn aðgengilegur öllum í snjallforritaverslun Apple og Google. Um er að ræða fyrsta skrefið í útgáfuferli leiksins, að því er segir í tilkynningu Solid Clouds, sem er skráð á First North-markaðinn.

Starborne Frontiers er hannaður fyrir snjalltæki en einnig verður hægt að spila hann í PC-útgáfu á næstu misserum. Um er að ræða hlutverkaleik þar sem spilarinn er í hlutverki leiðtoga sem safnar og uppfærir flota geimskipa til að kanna, skipuleggja og sigra Starborne heiminn „sem er fullur af spennu og bardögum“.

Solid Clouds segir að gögn um hegðun spilara verði notuð til að þróa og fínstilla leikinn svo að hann nái tilskildum viðmiðunarmörkum varðandi tekjur og spilatíma hvers notanda. Þegar þessum markmiðum verður náð sé næsti stóri áfangi félagsins endanleg útgáfa leiksins.

„Opnun leiksins fyrir almenning er risastór áfangi fyrir félagið og teymið sem hefur unnið hörðum höndum að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur. Við hlökkum til að fá viðbrögð spilara og hvetjum alla til að ná sér í leikinn frítt. Við nálgumst endanlega útgáfu leiksins en hann á bara eftir að verða betri eftir því sem við ítrum hann áfram,“ segir Stefán Gunnarsson, forstjóri Solid Clouds.