ORF Líftækni hefur undirritað samstarfsyfirlýsingu við kóreska matvælafyrirtækið SeaWith um þróun og framleiðslu á vaxtarþáttum fyrir vistkjöt. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.
Samkvæmt tilkynningunni mun SeaWith nýta vaxtarþætti frá ORF Líftækni við væntanlega framleiðslu á vistkjöti og nýta vaxtarþætti frá ORF til þess að auka framleiðslugetu sína og hasla sér völl á matvörumarkaði.
Þar segir einnig að yfirlýsingin kveði jafnframt á um samstarf við frekari þróun og rannsóknir á vaxtarþáttum fyrir vistkjöt.
„Vistkjöt er ný tegund matvöru, þar sem kjöt er ræktað án þess að dýr séu alið, því slátrað og landsvæði rutt, með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Mun minna kolefnisspor er af vistkjötsframleiðslu en hefðbundinni kjötframleiðslu. ORF Líftækni framleiðir sérvirk prótín sem kallast vaxtarþættir, sem nauðsynlegir eru til framleiðslu á vistkjöti, úr byggi undir vöruheitinu MESOkine,“ segir í fréttatilkynningunni.
Eflir stöðu okkar á þessum ört vaxandi markaði
„Þetta er mikilvægur áfangi fyrir ORF Líftækni en við erum þegar leiðandi fyrirtæki í framleiðslu á vaxtarþáttum fyrir vistkjötframleiðslu,“ segir Berglind Rán Ólafsdóttir forstýra ORF Líftækni. „Þetta samstarf eflir stöðu okkar á þessum ört vaxandi markaði. Samstarf við SeaWith um frekari þróun og rannsóknir er líka ákaflega spennandi.“
Samkvæmt tilkynningu er SeaWith nýsköpunarfyrirtæki á sviði matvælaframleiðslu, en í maí 2021 varð fyrirtækið fyrst til þess að rækta kjöt í Suður-Kóreu, og tryggði sér í kjölfarið fjármögnun til frekari vöruþróunar.
Markmið fyrirtækisins er að koma vistkjöti á markað undir vörumerkinu Welldone árið 2025.