Sam Bankman-Fried, stofnandi FTX, mun mæta fyrir dómstól í New York í dag þar sem hann verður formlega dæmdur í stærsta fjársvikamál í sögu Bandaríkjanna. Hann hefur meðal annars verið dæmdur fyrir svik og peningaþvætti.

Samkvæmt fréttamiðlinum BBC verður hann að öllum líkindum dæmdur í fangelsi en óljóst er hversu langur dómur hans verður.

Saksóknarar hafa farið fram á að fyrrum rafmyntamógullinn afpláni 40 til 50 ára dóm en lögmenn Bankman-Fried hafa beðið vægðar vegna einhverfurófsröskunar og telja að hann eigi aðeins að hljóta fimm til sex ára fangelsisdóm.

Kviðdómur í New York fann Bankman-Fried sekan í öllum sjö ákæruliðum sem hann var kærður fyrir á síðasta ári. Bankman-Fried getur hæst fengið rúmlega 100 ára fangelsisdóm en hann var sakfelldur fyrir að stela milljörðum dala frá viðskiptavinum FTX.