Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR), gagnrýnir harðlega núverandi fyrirkomulag á starfi tilnefningarnefnda hjá skráðum félögum í Kauphöllinni og segir það til fallið að draga úr gagnsæi, í aðsendri grein á Innherja.

Harpa leggur til að tilnefningarnefndirnar skili hluthöfum rökstuddum opnum umsögnum um alla þá frambjóðendur sem tilnefningarnefndin telur hæfa, ekki bara um þá frambjóðendur sem nefndirnar tilnefna í stjórnir umræddra félaga líkt og almennt tíðkast. Hún telur að með því fáist faglegra ferli og auki möguleikann á að hluthafar geti beitt atkvæðisrétti sínum.

„Eða eru hluthafar almennt sáttir við ógagnsæi og framsal atkvæðisréttar síns?“

Harpa bendir á að framboð til stjórnar eru lögð fram í trúnaði hjá tilnefningarnefndum, sem yfirfara umsóknirnar og tilnefna þau sem talin eru hæfust til stjórnarsetu – að mati nefndarinnar.

Algengt er að í kjölfar þess að tilnefningarnefnd birtir tilnefningar sínar til stjórnar, þá draga flestir ef ekki allir frambjóðendur sem fá ekki tilnefningu framboð sitt til baka jafnvel þótt tillögur nefndarinnar eigi einungis að vera ráðgefandi.

„Þetta leiðir til þess að í yfirgnæfandi fjölda tilvika er sjálfkjörið í stjórnir og hluthafar fá hvorki að vita hverjir buðu sig fram til stjórnarkjörsins né fá þeir tækifæri til að nýta atkvæðisrétt sinn. Þegar við bætist að tillögur tilnefningarnefndanna eru oft rökstuddar á almennan hátt og ekki dregið fram hvers vegna ákveðnir frambjóðendur hljóta náð þeirra umfram aðra ónafngreinda er valdsvið nefndanna orðið óheppilega víðtækt,“ segir Harpa.

Í eigendastefnu LSR kemur fram að sjóðurinn styðji starfrækslu tilnefningarnefnda með það fyrir augum að auka skilvirkni og gagnsæi við tilnefningu stjórnarmanna. Harpa segir að síðastliðin ár virðist fyrirkomulagið hins vegar frekar hafa dregið úr gagnsæi en hitt.

Harpa segir að ein helsta leiðin fyrir LSR, stærsta lífeyrissjóð landsins, til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri sé að geta nýtt atkvæðisrétt við stjórnarkjör á aðalfundi og velja aðila í stjórn sem starfa í takt við stefnur og viðmið sjóðsins. Sérstaklega sé það mikilvægt ef fulltrúum LSR þykir tilnefningarnefnd hafa farið út af sporinu við tillögugerð sína.

„Hluthafar fá ekki að vita hverjir bjóða sig fram og þess vegna er möguleiki hluthafa á að nýta atkvæðisréttinn og velja milli margra hæfra umsækjenda ekki lengur til staðar. Ég tel einsýnt að þetta fyrirkomulag þurfi að endurskoða,“ segir Harpa.

„Það er að mínu mati ótæk niðurstaða að hluthafar framselji tilnefningarnefndum í framkvæmd atkvæðisrétt sinn.“

Arne Vagn Olsen, forstöðumaður eignastýringar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LIVE), sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku að honum þætti það óheppilegt hversu margir frambjóðendur til stjórnar hjá skráðum félögum draga framboð sín til baka ef þær fá ekki tilnefningu.

„Það er ekki langt síðan þessar nefndir voru settar á fót og þær hafa tekið breytingum til batnaðar á undanförnum árum. Þetta er kannski hluti af því hvernig þessar nefndir eiga eftir að þroskast. Nefndirnar eru þó ekki alráðar, þó sumum kunni að finnast það. Það eru dæmi um það að sjóðir eins og við hafi kosið að fylgja ekki tillögum nefndanna og greitt atkvæði með öðrum frambjóðendum.“