Frumvarp forsætisráðherra um auknar heimildir Seðlabankans til að tryggja rekstraröryggi greiðslumiðlunar er nú til umfjöllunar í þingnefnd.

Mörgum spurningum er þó enn ósvarað. Til að mynda hefur ekkert kostnaðarmat farið fram en í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja er sérstaklega vikið að þessum þætti. Dregin er fram sviðsmynd um notkun lausnarinnar og mögulegar tekjur sem eiga að styðja við stofnun og rekstur innviða.

Út frá fyrirliggjandi gögnum um notkun debetkorta og seljendaþóknun hafa SFF reiknað út að ef hin nýja lausn nær til að mynda 50% markaðshlutdeild og seljendaþóknun fer niður í 0,2% muni áætlaðar árstekjur nýrrar lausnar nema 240 milljónum króna, miðað við veltu á markaðinum fyrir matvöru, lyf og eldsneyti, sem Seðlabankinn hafi lagt áherslu á að innlend smágreiðslumiðlun styðji við kaup á.

Mjög ólíklegt sé þó að ný lausn nái svo mikilli útbreiðslu að hún verði jafn mikið notuð og debetkort. Miðað við sömu söluþóknun en 10% markaðshlutdeild eru áætlaðar árstekjur til að mynda aðeins 48 milljónir. Þannig sé ljóst að tekjur dugi ekki til að standa straum af rekstri slíkrar lausnar eða upphafs fjárfestingu við smíði og innleiðingu.

„Hagkvæmni við rekstur greiðslumiðlunar er mjög háð færslumagni og veltu. Íslenski markaðurinn er mjög lítill og því mikil áskorun að reka hagkvæmari lausn en hægt er á mun stærri mörkuðum,“ segir í umsögninni.

Að auki liggi engar áætlanir fyrir um hvort almenningur, fyrirtæki, ferðamenn eða söluaðilar myndu vilja nýta sér hina nýju lausn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.