Gengi veðmálarisans Entain, sem á meðal annars verðmálafyrirtækin Ladbrokes, Coral, BetMGM og Bwin svo dæmi séu tekin, hrundi í dag eftir að árshlutauppgjör sýndi dvínandi tekjur í veðmálastarfsemi fyrirtækisins.
Í uppgjörinu segir að fyrirtækið hafi lent í miklu tekjufalli vegna „óhagstæðra íþróttaúrslita“ í septembermánuði ásamt því að harðari reglur, sérstaklega í Bretlandi, um veðmálafyrirtæki séu að höggva í afkomuna.
Breska ríkisstjórnin ákvað að herða reglur um rafræn spilavíti og veðmálafyrirtæki í apríl á þessu ári en Entain hefur nú lækkað afkomuspá ársins.
„Búast má við minni tekjum á þriðja ársfjórðungi meðan fyrirtækið innleiðir nýjar reglur um öruggari veðmálastarfsemi,“ segir í uppgjörinu.
Gengi Entain lækkaði um 11% Í Kauphöllinni í Lundúnum.