Bako Ísberg hagnaðist um 83 milljónir króna á síðasta ári en árið áður nam hagnaður 31 milljón króna. Þar af leiðandi hátt í þrefaldaðist hagnaður félagsins á milli áranna 2022 og 2023. Þá jók félagið tekjur sínar um 22% milli áranna, úr 780 milljónum árið 2022 í 950 milljónir árið 2023 og hafa þær aldrei verið hærri.

Seldu 50 þúsund kristalglös í fyrra

Eitt af því sem Bjarni Ákason, framkvæmdastjóri og meirihlutaeigandi Bako Ísberg, lagði áherslu á er hann eignaðist Bako Ísberg var að auka sölu til heimilanna. Til að mynda hefur sala á vínkælum til einstaklinga aukist verulega. „Í kringum Covid-19 faraldurinn myndaðist mikill áhugi fyrir vínmarkaðnum og salan til einstaklinga á vínglösum, -kælum og fleiri tengdum vörum jókst mikið. Fólk drakk náttúrulega meira en áður á þessum tíma og það sást á sölutölunum,“ segir Bjarni og hlær. Félagið hafi í raun fyllt upp í ákveðið gat sem var á markaðnum og að faraldri loknum hafi það áfram verið í sterkri stöðu á vínmarkaði. Til marks um umfang Bako Ísberg á markaðnum seldi félagið um 50 þúsund kristalglös til heimila og fyrirtækja á síðasta ári.

Bjarni kveðst ekki síður hafa fundið fyrir áhuga meðal almennings að versla á sama stað og fagfólk í veitingageiranum. „Víða erlendis, t.d. í Frakklandi, verslar almenningur mikið á sömu stöðum og fagfólkið. Það var kominn tími til að gefa landsmönnum hér á landi kost á því sama.“

Pantanabókin lofar góðu

Spurður um horfur fyrir árið 2024 segir Bjarni bjartsýni hafa ríkt innan ferðamannageirans í byrjun árs. Aftur á móti eigi eftir að koma í ljós hvaða áhrif eldgos og jarðhræringar á Reykjanesskaga eigi eftir að hafa á markaðinn. „Ég átta mig því ekki alveg á hvort þetta verði gott ár hjá okkur eða bara allt í lagi. Svo maður segi eins og stjórnendur hjá Marel hafa oft gert þá lítur pantanabókin okkar þó vel út,“ segir Bjarni kíminn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.