Framleiðslufyrirtækið Pegasus hagnaðist um 158,9 milljónir króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi fyrirtækisins.

Þetta er töluvert meiri hagnaður en ári fyrr þegar hann nam 46 milljónum króna. Tekjur félagsins námu núna í heildina tæpum 2,2 milljörðum króna á árinu og jukust um nær 1,2 milljarða króna frá því ári fyrr.

Eignir Pegasus námu 466 milljónum króna í lok ársins en skuldir voru 115 milljónir króna. Eigið fé fyrirtækisins nam því á sama tíma 351 milljón króna og jókst um 96 milljónir á milli ára.

Þá kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins að stjórn þess leggi til að greiddur verði arður að fjárhæð 100 milljóna króna til hluthafa.

Snorri Þórisson er stærsti eigandi Pegasus og á hann 63% hlut í fyrirtækinu. Aðrir eigendur eru Einar Sveinn Þórðarson með 25% hlut, Lilja Ósk Snorradóttir með 10% hlut og Erla Friðriksdóttir með 2% hlut.